Birkisafinn tekinn að renna á ný

0
180

Birkið í Vaglaskógi er farið að bruma og þá er kominn rétti tíminn til að tappa hinum meinholla birkisafa af trjánum. Settur hefur verið aftöppunarbúnaður á 41 tré í skóginum og gefa trén nú þegar tugi lítra á hverjum degi. Vefurinn Skógur.is fylgdist með þegar Benjamín Örn Davíðsson aðstoðarskógarvörður tæmdi úr fötunum í gær.

Benjamín hellir safanum úr söfnunarfötunni yfir í tunnu
Benjamín Örn hellir safanum úr söfnunarfötunni yfir í tunnu

Safataka var lítillega reynd í fyrravor í Vaglaskógi og lofaði góðu. Verkefnið er unnið í samvinnu við fyrirtækið Foss Distillery sem framleiðir nú þegar líkjör og snafs úr birkisafa og hyggur á framleiðslu birkisíróps, bragðefna og fleiri vara á komandi árum. Nóg er af stórum og heilbrigðum birkitrjám í Vaglaskógi til að taka safa úr en gæta verður þess að taka ekki úr sama trénu ár eftir ár heldur leyfa þeim að jafna sig á milli.

Borað er í tréð og tappa með slöngu er stungið í gatið.
Borað er í tréð og tappa með slöngu er stungið í gatið.

Í síðustu viku var settur aftöppunarbúnaður á alls 41 tré neðan við fræhúsið svokallaða á Vöglum sem stendur þar við starfstöð Skógræktar ríkisins í Vaglaskógi. Nokkuð er enn í að nægileg reynsla hafi fengist af slíkri safatöku hérlendis en Skógræktin gerir nú tilraunir bæði á Vöglum og á Tumastöðum í Fljótshlíð í samstarfi við Foss Distillery sem útvegar búnaðinn og tekur við safanum.

Birkisafinn er talinn mjög hollur. Hann má drekka beint eða kældan úr ísskáp. Sumir nota birkisafa við ísgerð, ölgerð eða ýmsa matargerð og brauð sem birkisafi er notaður í eru sögð lyfta sér sérlega vel.

Lesa meira á skógur.is (Texti og myndir Pétur Halldórsson)