Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri var haldin á Laugum í Reykjadal sunnudaginn 23. ágúst. Alls mættu sex félög með átta lið til keppni að þessu sinni og voru rúmlega 100 keppendur. A-lið ÍR og HSK/SELFOSS urðu jöfn í efsta sæti með 122,5 stig. Lið ÍR var með 7 sigurvegara en HSK/SELFOSS með 3 sigurvegara svo ÍR urðu bikarmeistarar. UFA/UMSE kom þar á eftir með 122 stig svo það var mjög jafnt á toppnum. Frá þessu segir á vef HSÞ

Í stúlknaflokki vann A-lið ÍR með 69,5 stig, HSK/SELFOSS var í 2. sæti með 61,5 og UFA/UMSE varð í 3.sæti með 54 stig. Í karlaflokki var það UFA/UMSE sem sigraði með 68 stig, HSK/SELFOSS var í 2. sæti með 61 stig og HSÞ í 3. sæti með 54 stig.


Þriðjudaginn 25. ágúst var “slútt” í frjálsum. Að þessu sinni var farið í Ásbyrgi í góðu veðri og félagsskap. Brói þjálfari útnefndi þá einstaklinga sem voru stigahæstir í árangri eftir þetta tímabil. Arna Dröfn Sigurðardóttir var stigahæst stúlkna með 935 stig en næst á eftir henni var Erla Rós Ólafsdóttir með 934 svo það munaði mjög litlu á þeim. Páll Vilberg Róbertsson var stigahæstur drengja með slétt 1000 stig en á eftir honum var Jón Alexander Arthúrsson með 923 stig.