Bárður og Svala heiðruð

0
396

Það var hátíðleg stund á fundi í Sólvangi á Tjörnesi þegar Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga heiðraði Bárð Guðmundsson dýralækni og Svölu Hermannsdóttur konu hans eftir mjög farsæl störf í þágu Þingeyinga. Tilefnið var sjötugsafmæli Bárðar sem var nýlega og var þeim hjónum færð vegleg bókargjöf.

Bárður Guðmundsson og Svala Hermannsdóttir ásamt stjórnarmönnum í Búnaðarsambandi S-Þing. F.v. Gunnar Brynjarsson í Baldursheimi og Hlöðver Pétur Hlöðversson á Björgum. Mynd. Atli Vigfússon
Bárður Guðmundsson og Svala Hermannsdóttir ásamt stjórnarmönnum í Búnaðarsambandi S-Þing.
F.v. Gunnar Brynjarsson í Baldursheimi og Hlöðver Pétur Hlöðversson á Björgum. Mynd. Atli Vigfússon

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Bárður og Svala komu til Húsavíkur og hófu störf hinn 22. febr. 1977 og er því farið að halla á fjórða áratuginn frá því að þau komu, en Hlöðver Pétur Hlöðversson bóndi á Björgum og stjórnarmaður í BSSÞ sagði að það hefði verið héraðsgæfa að fá þau hingað til starfa.

Hann sagði í ávarpi sínu til þeirra hjóna að Bárður hefði alla tíð verið mjög natinn dýralæknir og mörg dýr í sýslunni hefðu átt Bárði lengra líf að þakka. Hann sagði að oft væri dýralæknisstarfið erfitt og Bárður hefði leyst það með einstakri alúð og umhyggju. Þá gerði Hlöðver að umræðuefni hversu skemmtileg kona Svala hefði alltaf verið og reynst bændafólki afar vel á þeim tíma þegar hún afgreiddi dýralyf, en það gerði hún um langt árabil. Á þeim árum komu mjög margir til Svölu í hársnyrtingu, en hún er hárgreiðslumeistari og klippti hún marga bændur meðan hún rak hársnyrtistofu, en héraðsbúar minnast margs frá þessum tíma með miklu þakklæti. Hlöðver Pétur sagði margt mjög ánægjulegt í samstarfi við þau hjón og minntist sérstaklega á störf Bárðar í sláturhúsinu þar sem snyrtimennska hefði verið höfð í miklu fyrirrúmi sem hefði haft áhrif til framtíðar.

Svala Hermannsdóttir ávarpaði fundinn og fór með nokkrar vísur sem bændur sendu henni á árum áður, en þær hefur hún geymt hjá sér. Mynd: Atli Vigfússon
Svala Hermannsdóttir ávarpaði fundinn og fór með nokkrar vísur sem bændur sendu henni á árum áður, en þær hefur hún geymt hjá sér. Mynd: Atli Vigfússon

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þau Bárður og Svala hlutu mikið klapp fundarfólks, en að því loknu stóðu þau bæði upp, ávörpuðu fundinn og minntust starfa sinna, en þá var slegið á létta strengi og farið með vísur og fleira tengt skemmtilegum minningum. Þau þökkuðu bæði góð kynni og samstarf í áratugi.