Bárðdælingar vilja bundið slitlag á veginn.

0
89

Bárðdælingar eru þolinmóðir, duglegir, samheldnir og  glaðsinna. Bárðdælingar hafa verið að vonast eftir bundnu slitlagi á dalinn sinn í mörg ár. Núna á mjög stuttum tíma hafa orðið tvö umferðaróhöpp vegna þess að ökumenn missa bílana útí lausamöl. Vegurinn er þó mun skárri núna en hann hefur oft verið áður, og alltaf þarf að fara mjög gætilega þegar ekið er á malarvegi.

Í fyrra slysinu misstu erlendir ferðamenn stjórn á bíl sínum og veltu honum norðan við bæinn Jarlstaði, og sem betur fer sluppu þau við meiðsli, en bílaleigubíllinn skemmdist. Á föstudaginn var, varð annað slys, þá sunnan við Sunnuhvol, þá missti ökumaður stjórn á bíl sínum og endaði á hvolfi útí Skjálfandafljóti. Tvennt var í bílnum. Fljótið var vatnsmikið og gruggugt. En með undraverðum hætti tókst þeim að komast út úr bílnum og koma sér á þurrt. Þau voru óbrotin en skrámuð,  marin og köld. Þau voru flutt á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureryi til rannsóknar og voru þar yfir nótt. Bæði lögregla sem kom á staðinn og aðrir, segja að það sé einfaldlega kraftaverk að ekki fór verr. Bíllinn er gjörónýtur.

Eins og kom fram í fréttum í fyrrasumar veiktist kona í dalnum, og kallað var eftir sjúkrabíl.  Mikið var fjallað um málið þá, því tvívegis sprakk dekk á sjúkrabílnum og þurfti á endanum að bíða eftir bíl frá Akureryi. Konan var mjög alvarlega veik. Eftir þessar hrakningar var mikið rætt og ritað um slæman veg í Bárðardal en lítið hefur gerst og enn bíða Bárðdælingar eftir framkvæmdum. Fréttaritari talaði við Gunnar Bóasson yfirverksstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík í dag, og spurði hann hvað væri að frétta af framkvæmdum í Bárðardal, hann segist ekkert hafa heyrt minnst á það eftir hrun, og að hann fái engu ráðið þar um. Gunnar sagði að það hefði verið fyrirhugað var að leggja bundið slitlag á dalinn að vestan, suður í Mýri. Á þeirri leið þarf ekki mikið að gera fyrir veginn til að leggja bundið slitlag. Planið var, að klára dalinn að vestan , byggja þá upp veginn að austan, frá Fosshóli að Kálfborgará, en lengra átti ekki að fara.

En það eru ekki bara Bárðardælingar sem aka þarna um, því vegurinn uppá Sprengisand liggum um dalinn. Fjölmargir ferðamenn eru því á ferðinni, skoða m.a. Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafossa. Ferðaþjónusta er rekin í Kiðagili og þar er útilegumannasýning og hin sívinsælu kaffihlaðborð alla sunnudaga.

Það er ansi mikill kostnaður hjá bíleigenda sem aka mest um dalinn, vegna skemmda á dekkjum, felgum, grjótbörðum undirvagni, lakkskemmdum, hjólalegum og fjöðrunarbúnaði.

horft inn Bárðardal
horft inn Bárðardal