Bárðdælingar lokaðir inni

0
427

Mikið hefur snjóað í Bárðardal í vetur og nú er svo komið að vegir í dalnum lokast jafn harðan og þeir eru opnaðir, vegna skafrennings.  Við það bætist að nútíma snjóruðningstæki eiga erfitt með að halda veginum opnum vegna mikillar snjósöfnunar og ruðninga meðfram veginum.  Ástandið í Bárðardal er því sambærilegt við það sem nú er á Möðrudalsöræfum og sagt hefur verið frá í fréttum. Í dag vantaði td. alla nemendur Stórutjarnaskóla úr Bárðardal, nema frá Úlfsbæ, ysta bæ austan Skjálfandafljóts.

Stóruvellir í Bárðardal. Eins og sést er ansi mikill snjór komin í Bárðardal. Mynd: María Sigurðardóttir.
Stóruvellir í Bárðardal. Eins og sést er ansi mikill snjór komin í Bárðardal. Mynd: María Sigurðardóttir.

Leikskólinn sem er staðsettur í Kiðagili er einnig lokaður af sömu orsökum. María Sigurðardóttir á Lækjarvöllum í Bárðardal sagði í spjalli við 641.is í dag að mikill snjór væri komin í Bárðardal, en 641.is náði tali af henni þar sem hún var nýkomin inn frá því að moka snjó ofan af fjárhúsþakinu á Lækjavöllum en eitthvað á annan metra af snjó var kominn á fjárhúsþakið.

Kristján Valur Gunnarsson að moka snjó af fjárhúsþakinu á lækjarvöllum. Mynd. Maria Sigurðardóttir.
Kristján Valur Gunnarsson að moka snjó af fjárhúsþakinu á Lækjarvöllum. Mynd. Maria Sigurðardóttir.

María sagðist ekki vita hvort börn komast í skólann á morgun föstudag. Það þarf að opna veginn til þess að svo megi verða. Í dag hefur verið bjart og sólríkt verður í Bárðardal en stöðugur skafrenningur og vegurinn ófær. Mjólkurbílnum var td. snúið frá í morgun þar sem ljóst þótti að hann kæmist ekki til að sækja mjólk á bæi í Bárðardal.

María vonaðist eftir því að það tækist að opna veginn á morgun, en mjög slæm verðurspá er fyrir helgina með mikilli snjókomu á Norðurlandi og mun því enn bæta á snjóinn í Bárðardal ef spáin gengur eftir.

Séð heim að Kiðagili. Mynd: María Sigurðardóttir.
Séð heim að Kiðagili. Mynd: María Sigurðardóttir.
Vegurinn neðan Kiðagils. Talsverður ruðningur er komin meðfram veginum. Mynd: María Sigurðardóttir
Vegurinn neðan Kiðagils. Talsverður ruðningur er komin meðfram veginum. Mynd: María Sigurðardóttir