Bárðardalsvegur vestari 2018 – Er þetta í lagi ?

0
1152

Þórir Agnarsson bóndi á Öxará í Bárðardal birti í morgun myndband á facebook af stuttum kafla af Bárðardalsvegi vestari sem sýnir ástand vegarins. Vegurinn er vægast sagt í slæmu ástandi þrátt fyrir að hafa verið lagfærður í fyrra. Vegurinn er varla ökufær og mjög holóttur, eftir miklar rigningar í sumar og eru Bárðdælingar orðnir langþreyttir á ástandinu.

“Alveg úrvals efni, getur verið að gróðurinn og moldin bindist illa og skolist burt og eftir verði holur” Mynd: Þórir Agnarsson

“Eftir endalausar tilraunir með efni, aka í þetta leir, hefla hann útaf sökum þess að hann var ómögulegur og hættulega hált í honum, sækja hann aftur og mala hann saman við grjót, jarðveg og gróður, þá er þetta niðurstaðan” skrifar Þórir á facebook í morgun.

“Þetta er óþolandi ástand. Ef eitthvað rignir þá festist leirdrullann á bílanna og fólk á í mestu vandræðum með að komast í og úr bílunum á þess að fötin verði óhrein, sem er alveg sérstaklega óheppilegt ef menn eru í sparifötunum”, sagði Ingvar Vagnsson sæðingamaður og bóndi á Hlíðarenda sem keyrir veginn nær daglega í tengslum við sína vinnu, í spjalli við 641.is í dag.

Myndbandið má skoða hér fyrir neðan, en það var tekið frá vegamótunum við þjóðveg nr. 1 suður að brúnni yfir Öxará.

Uppfært kl. 15:15

Verið er að hefla Bárðardalsveg vestari í þessum töluðu orðum.