Bændur áhyggjufullir – Kalhætta og heyfengur lítill

0
127

Veðurfarið hefur leikið Þingeyska bændur grátt undanfarna mánuði og hafa bændur vægast sagt mjög miklar áhyggjur af stöðunni. Mikill snjór er ennþá mjög víða á túnum í sýslunni og engin merki um að vorið sé á næstu grösum. Bændur vita í raun ekki hvað er undir snjónum en margir óttast að mjög mikill klaki sé á túnunum, undir snjónum, sem komi til með að valda kaltjóni mjög víða.

63 cm þykkur klaki er á einu túninu á Hólmavaði í Aðaldal. Mynd: Benedikt og Elín á Hólmavaði.
63 cm þykkur klaki er á einu túninu á Hólmavaði í Aðaldal. Mynd: Benedikt og Elín á Hólmavaði.
Upp úr holunni gaus fýla mikil. Mynd: Benedikt og Elín á Hólmavaði.
Upp úr holunni gaus fýla mikil. Mynd: Benedikt og Elín á Hólmavaði.

 

 

 

 

 

 

 

 

63 cm þykkur klaki.

Benedikt Kristjánsson bóndi á Hólmavaði í Aðaldal tók sig til og boraði holu í klakann sem er á einu túninu á Hólmavaði til þess að mæla hve þykkur hann væri. Hann notaði ísbor til þess. Þykktin á klakanum var 63 cm og uppúr holunni gaus rotnunar fýla mikil og augljós að túnið er ónýtt vegna kals.

Bændur heylitlir

Að sögn Maríu Svanþrúðar Jónsdóttur ráðanauts á Húsavík eru margir bændur orðnir mjög heylitlir og mega því illa við því að seint vori. Heyfengur bænda varð rýr vegna kals og kuldatíðar sumarið 2011 og sumarið 2012 var heyfengur líka rýr vegna þurrka.  Af þeim sökum eiga bændur litla sem enga fyrninga fyrir þetta vor og brugðu margir á það ráð að minnka ásetning sl. haust til þess að fækka á fóðrum. Margir kúabændur hafa sent yngri gripi til slátrunar í vetur en venjulega, til að létta á fóðrum. Bændur fá minna greitt fyrir yngri og léttari gripi og því ber þetta allt að sama brunni. Bændur í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði hafa verið að kaupa hey í vetur, bæði úr Borgarfirði og alla leið sunnan úr Landeyjum. Gríðarlegur kostnaður er við þessi heykaup en algengt verð sem greiða þarf fyrir hverja heyrúllu er um 6-7000 krónur og annað eins fyrir flutninginn heim í hlað. Því miður hefur eitthvað borið á því að þessar aðkeyptu heyrúllur séu lélegar og varla skepnufóður í einhverjum tilfellum.

Girðingar ónýtar

Í septemberóveðrinu eyðilögðust girðingar mjög víða og ekki hafa snjóþyngslin í vetur bætt úr skák. Líklegt er talið að mun meira tjón á girðingum eigi eftir að koma í ljós þegar snjóa leysir, heldur en blasti við eftir septemberóveðrið.

Verstu 12 mánuðir árum saman ?

Ef veðurfarið í Þingeyjarsýslu er lauslega skoðað frá því í maí 2012 til apríl 2013 má segja að þessir tólf mánuðir sé einhverjir þeir verstu til búskapar í sýslunni síðan 1979. Seint í maí 2012 kom hressileg stórhríð og allt fór á kaf í snjó. Sumarið var líklega það þurrasta í einhverja áratugi sem leiddi til þess að tún brunnu vegna þurrkana og mjög lítil uppskera kom af þeim. Seinni sláttur brást algjörlega hjá lang flestum bændum og heyfengur varð með minnsta móti. Allir muna svo eftir fjársköðunum sem urðu í september og margir þurftu að taka inn kýr í kjölfar óveðursins vegna þess að grænfóður og kál eyðilögðust vegna snjóa. Síðan kom mjög snjóþungur vetur sem ekki sér fyrir endann á ennþá.

Engin hlýindi í kortunum.

Augljóst er að allur búfénaður hjá flest öllum bændum í Þingeyjarsýslu þarf að vera á fullri gjöf langt fram eftir vori fari ekki að hlýna í veðri fljótlega. Veðurspáin fyrir næstu daga gefur ekki tilefni til bjartsýni, því búist er við áframhaldandi snjókomu og frosti eftir helgi, eða eins langt og spáin nær.

Bændur vonast auðvitað eftir því að það breyti um veðurlag um eða upp úr mánaðarmótum með hlýjum sunnan áttum og hláku. Það getur breytt stöðunni mikið til batnaðar frá því sem nú er. En þangað til geta bændur ekki annað gert en að bíða og vona.