Áttunda og síðasta úthlutun VAXNA 2012-2013

0
98

Á fundi sínum 13. desember sl. samþykkti verkefnisstjórn Vaxtarsamnings Norðausturlands þátttöku í sex verkefnum.  Alls bárust níu umsóknir að þessu sinni þar sem sótt var um 19,7 mkr. og áætlaður heildarkostnaður verkefnanna var áætlaður 63,7 mkr.  Heildarupphæð veittra styrkvilyrða að þessu sinni var 9.040 þús. kr. og er heildarverkefniskostnaður þeirra verkefna sem vilyrði hlutu áætlaður 63,7 mkr.

Frá afhendingu styrkvilyrða úr 8. úthlutun VAXNA 2012-2013 (á myndina vantar forsvarsmenn nokkurra verkefna). Fv.Jóna Matthíasdóttir, Reinhard Reynisson, Baldur Daníelsson og Kristján Phillips.
Frá afhendingu styrkvilyrða úr 8. úthlutun VAXNA 2012-2013 (á myndina vantar forsvarsmenn nokkurra verkefna). Fv.Jóna Matthíasdóttir, Reinhard Reynisson, Baldur Daníelsson og Kristján Phillips.

Verkefnisstjórn samningsins hefur með þessari úthlutun lokið ráðstöfun fjármuna samningsins sem rennur skeið sitt um áramótin. Alls hefur verið úthlutað á grundvelli umsókna til 45 verkefna, samtals 78.485 þús. Einnig var ákveðið að verja allt að 4,8 mkr. til að styðja við framkvæmd verkefna í byggðafestuverkefninu á Raufarhöfn sem leitt er af Byggðastofnun í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Norðurþing, Háskólann á Akureyri og íbúasamtök á Raufarhöfn.

Þau verkefni sem vilyrði hlutu í þessari síðustu úthlutun eru:

Kerfill – rannsóknir á notagildi – allt að kr. 900.000,- Forsvarsaðili er Matarskemman ehf. og samstarfsaðilar Matís ohf. og Háskólinn á Akureyri. Verkefnisstjóri er Baldur Daníelsson. Markmið verkefnisins er rannsókn á efnasamsetningu jurtarinnar og hluta hennar við mismunandi vinnslu (s.s. þurrkun og útdráttur yfir í olíu og/eða lífræna leysa) auk þess sem skimað verður eftir áhugaverðri lífvirkni, en markvisst hefur verið unnið að uppsetningu aðferða til mælinga á eftirsóknarverðri lífvirkni í rannsóknaaðstöðu HA, Matís ohf. og samstarfsaðila að Borgum á Akureyri.

Frostþurrkun – undirbúningur og hönnunarvinna – allt að kr. 1.500.000,- Forsvarsaðili er Matarskemman ehf. og samstarfsaðilar Matís ohf., Háskólinn á Akureyri, Dexta – orkutæknilausnir ehf. og Raftákn verkfræðistofa. Verkefnisstjóri er Baldur Daníelsson. Markmið verkefnisins er að þróa búnað og tækni til frostþurrkunar þar sem hægt er að notast við mismunandi orkugjafa. Út frá frumþróun og greiningu mismunandi orkugjafa mun fullnaðarhönnun miðast við útfærslu sem nýtir jarðvarma. Hönnunin mun miðast við að búnaðurinn verði einfaldari og kostnaðarminni í framleiðslu en tilsvarandi búnaður sem notast er við erlendis í dag. Þá verður þróaður stjórnbúnaður frá grunni sem lágmarkar orkunotkun og tryggir stöðugleika og jöfn gæði afurða við keyrslu.

Matur úr héraði – Local Food Store – allt að kr. 640.000,- Forsvarsaðili er Þingeyska matarbúrið og samstarfsaðilar Viðbót ehf ., GPG Seafood ehf. og Jóna Matthíasdóttir. Verkefnisstjóri er Jóna Matthíasdóttir. Markmið verkefnisins er markaðsgreining og gerð viðskiptaáætlunar til undirbúnings fyrir opnun verslunar með áherslu á sölu afurða úr héraði – Local food store. Verslunin verður opin allan ársins hring með árstíðabundnum áherslum á mismunandi markhópa og framleiðsluvöru.

Lífdísill úr úrgangsfitu ætlaður bátum – allt að kr. 1.500.000,- Forsvarsaðili er Nýsköpunarmiðstöð Íslands og samstarfsaðilar Norðlenska matborðið ehf., Fjallalamb ehf. og Norðursigling ehf. Verkefnisstjóri er Magnús Guðmundsson. Markmið verkefnisins er að kanna forsendur þess að nýta úrgangsfitu sem til fellur á Norðausturlandi til framleiðslu á grænum lífdísil til notkunar á báta sem gerðir eru út á svæðinu. Sérstaklega verður skoðað með hvaða hætti nýta megi jarðvarma (lághita allt niður í 60°C) til framleiðslunnar.

Nýting á slógi til áburðar – allt að kr. 2.500.000,- Forsvarsaðili er Árni Gunnarsson og samstarfsaðilar GPG Seafood ehf. og Matís ohf. Markmið verkefnisins er að aðlaga og staðfæra þekkingu sem til er varðandi nýtingu á slógi til áburðar en jafnframt þróa lausnir á vandamálum sem upp hafa komið í fyrri verkefnum. Í framhaldi af því að koma upp aðstöðu til slíkrar nýtingar á Raufarhöfn og gera tilraunir með notkun áburðarins á tún eða flög í samræmi við gildandi reglur um heilbrigðismál.

Ostrurækt í Skjálfandaflóa – allt að kr. 2.000.000,- Forsvarsaðili er Víkurskel ehf. og samstarfsaðilar Hafrannsóknarstofnun, Sölkuveitingar ehf., Acuinuga (Spánn) og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Verkefnisstjóri er Kristján Phillips. Markmið verkefnisins er að framleiða hágæða ferskvöru og nýta til þess hreinleika sjávarins hér og skapa þannig vörunni mikla sérstöðu og þar með verulegt samkeppnisforskot á innlendum sem erlendum markaði. Um er að ræða framhaldsáfanga í verkefninu sem einnig fékk styrk úr vaxtarsamningnum á síðasta ári. (atthing.is)