Í bréfi formanns Framsýnar Aðalsteins Árna Baldurssonar, til félagsmanna sl. mánudag skorar hann á félagsmenn að greiða atkvæði með boðun verfalls þar sem Samtök atvinnulífsins hafna alfarið kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands um hækkun lægstu launa sem Framsýn á aðild að. Frá þessu er sagt á vef Framsýnar-stéttarfélags.

Í bréfinu segir Aðalsteinn ma. að vonandi takist að semja en ef ekki, verður farið í verkfall eftir páska enda verði það samþykkt í atkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir.
Verði verkfallsheimildin samþykkt ber öllum félagsmönnum Framsýnar sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að leggja niður vinnu og fara í verkfall.
Verði verkfallsheimildin samþykkt verður verkfall eftirtalda daga hjá félagsmönnum í Framsýn:
10. apríl: Allsherjarvinnustöðvun frá kl. 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands.
16. apríl: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Framsýnar stéttarfélags,Verkalýðsfélags Grindavíkur, Öldunnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur.
27. apríl: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Framsýnar stéttarfélags,Verkalýðsfélags Grindavíkur, Öldunnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, Verkalýðsfélags Snæfellinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis.
30. apríl: Allsherjarvinnustöðvun frá kl. 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands.
Takist ekki að semja í apríl hefjast frekari aðgerðir 12. maí.
Niðurstöður úr atkvæðagreiðslu félagsmanna í Framsýn verða ljósar þriðjudaginn 31. mars.