Ásýndir lands í Safnahúsinu á Húsavík

0
199

Laugardaginn 15. september klukkan 15, opnar sýningin Ásýndir lands í Safnahúsinu á Húsavík. Verkin á sýningunni eru úr safneign Myndlistarsafns Þingeyinga. Verkin fást við ósnortið landslag, manngert umhverfi og einstaklinginn, hvert á sinn hátt. Með því að stefna þeim saman er markmiðið ekki aðeins að bjóða áhorfandanum að njóta þessara verka, heldur einnig að vekja upp hugleiðingar og spurningar um hugtök á borð við stað, tungumál, land, náttúru, manngert umhverfi og umbreytingu.

Þessi hugtök hafa fengið aukið vægi í samtímanum, og hafa tekið á sig samfélagslegar og pólitískar víddir. Á sýningunni er leitast við að skoða þau frá sjónarhorni myndlistarinnar og þau sett í samhengi við það hvernig land, umhverfi og eintaklingur birtast í mismunandi framsetningum listamanna.

Sýningarstjóri sýningarinnar er Jóhannes Dagsson. Jóhannes er heimspekingur og myndlistarmaður. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá University of Calgary 2012 og er lektor við Listaháskóla Íslands.

Sýningin er opin á virkum dögum 10 – 16 og á laugardögum 10 -14. Aðgangur er ókeypis og verður sýningin opin fram í miðjan nóvember.