Ástarlíf bleikjunnar – Fræðslukvöld á mánudagskvöld á Selhóteli

0
241

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý) og Veiðifélag Mývatns standa fyrir fræðslukvöldi á Selhóteli mánudaginn 14. ágúst kl. 20.00. Þar mun Dr. Árni Einarsson forstöðumaður Ramý segja frá fyrstu tilraunum til að kortleggja riðastöðvar silungs í Mývatni með myndatökum úr lofti. Einnig fjallar hann um það sem almennt er vitað um hrygningaratferli bleikjunnar.

Vöktun á bleikjustofninum sýnir að hann er byrjaður að rétta úr kútnum efir markvissar friðunaraðgerðir undanfarinna ára. Það hefur lengi verið draumurinn að styrkja vöktun stofnsins með athugunum á hrygningarstöðvunum. Í fyrrahaust var prófað að taka myndir af helstu riðastöðvunum í Mývatni með dróna. Sú tilraun lofar mjög góðu, riðablettirnir („hreiðrin” eða „dammarnir”) sjást mjög vel og hægt er að skoða fiska sem þar halda sig. Líklega má fá einhvers konar mælikvarða á hrygningarvirkni bleikjunnar í Mývatni með slíkum myndatökum. En þær opna líka nýja möguleika á rannsóknum á líffræði bleikjunnar í vatninu. Til að skilja betur eðli riðablettanna þarf að leita í smiðju atferlisfræðinga sem rannsökuðu hrygningaratferli bleikju í Svíþjóð um miðbik síðustu aldar. Árni mun segja frá rannsóknum þeirra.

Allir velkomnir. Ramý og Veiðfélag Mývatns