Ástandið mun alvarlegra en talið var.

0
80

Áhlaupið sem gengið hefur yfir Norðurland síðasta sólarhringinn hefur valdið ófærð og rafmagnsleysi allt frá Vatnsskarði í vestri austur á Melrakkasléttu. Ástandið er mun verra en í fyrstu var talið á Norðausturlandi og er aðgerðarstjórn Almannavarna að störfum í umdæmi sýslumannsins á Húsavík og hafa fulltrúar lögreglu og Slysavarnafélagsins Landsbjargar þegar hafið störf og munu eiga fund með fulltrúum Búgarðs, Rariks og fleiri aðilum nú um þrjúleytið. Einnig er vettvangsstjórn að störfum í Mývatnssveit.  Frá þessu er sagt á mbl.is

Hjálparsveitarmenn notuðu snjóflóðaleitarstengur við leitina að kindunum í Reykjadal í gær.
Mynd: Sigurður Hlynur Snæbjörnsson.

Rafmangsleysi veldur vandræðum víða

Rafmagnsleysið hefur valdið bæði bændum og öðrum atvinnurekendum vandræðum. Unnið er að viðgerð á raflínum og varaaflstöðvar eru keyrðar víða, en þó þarf að skammta rafmagn.

Sauðfé hefur víða fennt, bæði í byggð og á heiðum. Smölun var ekki lokið alls staðar. Unnið er að því að bjarga fé. Óvenju margir erlendir ferðamenn eru enn á ferð um Norðurland og kom veðrið þeim flestum á óvart. Björgunarsveitamenn á Norðausturlandi og Húnavatnssýslum vinna nú hörðum höndum við að bjarga fé undan snjó. Svo virðist sem umfang vandans sé mun meira en áður var talið.

4000 kindur úti á Þeistareykjasvæðinu

Fé hefur fennt í kaf á mörgum bæjum í Mývatnssveit og hefur verið unnið að því að bjarga þeim í gær og í dag. Á Þeistareykjasvæðinu eru um 4000 kindur úti en ekki er vitað hversu margar þeirra eru undir snjó. Ráðgert er að vinna þar á morgun.

Sömu sögu er að segja úr Húnavatnssýslum. Í Sauðadal eru nú um 15 björgunarsveitamenn að bjarga fé úr snjó. Ekki er vitað um umfangið en talið er að yfir 1000 kindur séu í dalnum. Þar er mikill snjór og færi þungt, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.