Ásprent hefur keypt Skarp og Skrána á Húsavík

0
440

Ásprent Stíll ehf á Akureyri hefur keypt héraðsfréttablaðið Skarp og auglýsingaritið Skrána á Húsavík af Víði Péturssyni og tók formlega við útgáfunni 1. júní s.l. Frá þessu segir á Skarpur.is í dag. Jafnframt hefur fyrirtækið gengið frá ráðningasamningi við starfsmenn og vonast til að annast áfram þau verkefni sem Víðir hefur haft með höndum á svæðinu og raunar efla starfsemina sem mest. Víðir heldur hinsvegar eftir þeim hluta Skarps útgáfufélags sem annaðist bókaútgáfu, m.a. á kverum Sigurjóns Jóhannessonar og ritröðinni Sannar Þingeyskar lygasögur.

Skarpur.is
“Við höfum átt í góðu og farsælu samstarfi við Víði eftir að hann hætti prentþjónustu á Húsavík, sáum m.a. um prentun á Skránni og Skarpi fyrir hann og að auki ýmis prentverkefni fyrir fyrrverandi viðskiptavini Arkarinnar. Það var því í raun eðlilegt framhald hjá okkur að stíga inn þegar Víðir vildi selja. Skráin og Skarpur falla mjög vel að okkar hugmyndafræði og rekstri. Við gefum út sambærilega miðla á Akureyri, Dagskrána og Vikudag. Við þekkjum því vel hversu mikla þýðingu þessir miðlar hafa í nærsamfélaginu og nauðsyn þess að miðla fréttum og upplýsingum til samfélagsins.”

Skráin.is

Segir Guðmundur Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents.

Ítarlegar er fjallað um málið í prentútgáfu af Skarpi sem kom út í gær. (JS).