Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2015

0
60

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands heldur ársfund fimmtudaginn 9. apríl nk. Ársfundurinn verður í sal Hvalasafnins á Húsavík og stendur frá kl. 13:00 til 17:00. Frá þessu segir í fréttatilkynningu. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra setur ársfundinn. Ávörp flytja Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings.

Háskóli Íslands

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði og fornleifafræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis.

Á ársfundinum verða kynnt nokkur verkefni sem unnið er að við rannsóknasetrin. Marianne Rasmussen, forstöðumaður rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, segir frá rannsóknum á hvölum á Skjálfandaflóa sem hún hefur stýrt undanfarin ár. Þrír meistara- og doktorsnemar kynna rannsóknaverkefni sem unnin eru við rannsóknasetrin. Johannes Welling doktorsnemi við Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði kynnir rannsókn sína á áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum á ferðamennsku á jöklasvæðum; Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir meistaranemi við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík segir frá rannsókn á þróun og stöðu ferðaþjónustunnar á Húsavík og Soffía Karen Magnúsdóttir fjallar um tilraunaeldi á evrópska humrinum en hún er meistaranemi við Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum.

Héðinn Unnsteinsson stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu og Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga fjalla um ýmsa þætti rannsóknastarfs á landsbyggðinni. Loks kynnir Sæunn Stefánsdóttir forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra stefnu stofnunarinnar 2015-2017 sem unnið hefur verið að undanfarið.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Stofnunin er einnig með starfsemi á Austurlandi en þar er akademískur sérfræðingur nýkominn til starfa.

Nánar hér