Annasamur sólarhringur hjá þyrlu Landhelgisgæslunnar

0
135

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF hefur farið í tvö sjúkraflug í Öskju á þessum sólarhring og í báðum tilfellum vegna gruns um alvarleg veikyndi hjá ferðamönnum sem þar voru staddir. Í fyrra skiptið lenti þyrlan við Öskju um fimmleytið sl. nótt til að sækja ferðamanninn og var flogið með hann til Reykjavíkur. Um kl 16:00 í dag fór þyrlan svo í annað útkall í Öskju vegna veikinda hjá öðrum ferðamanni.  Á mbl.is segir frá því að í seinni ferðinni hafi svo annar veik­ur maður verið sóttur um borð í rútu við Dyngju­háls, norðvest­an við Kára­hnjúka. Flogið var með báða mennina til Reykjavíkur. 641.is er ekki kunnugt um líðan þeirra.

Öskjuvatn og Víti. Mynd: Jara Fatima Brynjólfsdóttir
Öskjuvatn og Víti. Mynd: Jara Fatima Brynjólfsdóttir

Spurningin um hvort ekki væri æskilegt að staðsetja eina þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri vaknar eðlilega eftir svona annasaman sólarhring hjá gæslunni. Væri ein þyrla varanlega staðsett á Akureyri hefði flugtíminn verið mun styttri sem gæti skipt verulega miklu máli þegar um alvarlega veikt eða slasað fólk er að ræða. Það tók þyrluna einn klukkutíma og 40 mínútur að fljúga aðra leiðina frá Reykjavík í Öskju og líklegt má telja að aðstæður til flugs hafi verið hagstæðar í dag. Þennan flugtíma má stytta mikið ef flogið er frá Akureyri.

Með auknum fjölda ferðamanna hlýtur þetta að verða spurning um hvenær en ekki hvort, björgunarþyrla verður staðsett á Akureyri.

Eins vaknar líka spruning um hvort ekki sé hægt að nýta flugbraut sem er við Herðubreiðarlindir vegna sjúkraflugs. Talið er mögulegt að lenda sjúkraflugvél, eins og td. vélum sem Mýflug á og notar, við Herðubreiðarlindir.

Augljóst má telja að ef mögulegt væri að nota flugbrautina við Herðubreiðarlindir vegna sjúkraflugs og varanlega staðsett þyrla á Akureyri, myndi auka öryggi allra þeirra sem ferðast um hálendið norðanvert sem og norðlendinga allra.