Andri Snær á erindi við Þingeyinga!

0
228

Ég hef átt því láni að fagna að starfa með frændum og vinum í Bárðardal að skemmtilegu verkefni undanfarinn áratug. Það er kennt við Svartárkot en hefur verið starfrækt á Kiðagili flest sumur frá árinu 2007. Í Bárðardal hafa komið hátt í 200 erlendir fræðimenn, vísindamenn og stúdentar og fræðst og fjallað um náttúru og menningu svæðisins á fjölbreyttum námskeiðum. Allir vilja koma sem oftast aftur og stúdentarnir hafa spurt hvort Bárðdælingar geti ekki bara ættleitt þá.

Það hefur alltaf verið lykilatriði að þetta verkefni gagnaðist heimamönnum jafnt sem kollegum mínum í heimi fræðanna. Um leið tengjast Bárðardalur og Þingeyjarsveit við alþjóðlegt fræðasamfélag.

Ég fékk hugmyndina að þessu verkefni haustið 2005, eftir góða heimsókn í Svartárkot. Skemmst er frá að segja að mér hefði aldrei dottið þetta í hug hefðu ekki góð kynni mín af Andra Snæ Magnasyni haft djúp áhrif á hugsunarhátt minn. Hann örvar fólk til að skoða möguleikana í kringum sig í nýju ljósi og hefjast sjálft handa.

Margir halda aðAndri Snær sé lattelepjandi borgarbarn. Það er einfaldlega rangt, enda á hann rætur, vini og samstarfsmenn víða um land. Það er hins vegar ástæða til að velta fyrir sér samhenginu:

Á 20. öld breyttist Ísland úr dreifbýlissamfélagi í borgarsamfélag, hraðar en gerðist víðast hvar annarsstaðar. Slíkar breytingar eru oft erfiðar og sársaukafullar og þær hafa kveikt óþörf menningarátök. Ég hef lengi haft áhuga á þessum aðstæðum. Upp úr síðustu aldamótum gerðist margt sem dró úr togstreitunni, meðal annars vegna vaxandi og lifandi áhuga borgarbúa á menningarlegum rótum sínum víða um land. Að því leyti er landsbyggðin neysluviðfang, þéttbýlisbúar af suðvesturhorninu ferðast um landið, skoða það og blanda geði við fólk.

Íslensk landsbyggð er þó og verður að vera meira. Hún verður að vera skapandi aflstöð og slíkir sprotar sjást um land allt. Svartárkotsverkefnið er slíkur sproti sem vex og dafnar hægt og sígandi. Æ fleiri erlendir fræðimenn heillast af svæðinu, náttúrunni og menningunni. Þeir vilja taka þátt í rannsóknarverkefnum sem svæðinu tengjast og koma með nemendur sína.

Andri og Sjöfn

Andri Snær Magnason hefur alltaf séð landið sem eina lifandi heild. Hann hefur einstaklega næman skilning á sambúð lands og þjóðar, á menningu að fornu og nýju, á þeim skapandi möguleikum sem leynast um allt land. Hann getur orðið forseti sem sameinar fólk úr þéttbýli og landsbyggð í lifandi og frjóa samræðu.

Hann býr líka yfir lifandi hugsjónum, löngun til að láta rækilega til sín taka til góðs í íslensku samfélagi og menningu. Þingeyingar hófu stórmerkilega endurreisnarhreyfingu fyrir meira en hundrað árum.

Þeir voru öflugustu boðberar nýrra tíma, rétt eins og Andri Snær Magnason í dag.

Ég hvet þingeyska frændur og vini til að kynna sér framboð Andra Snæs og stefnumál hans á http://andrisnaer.is/ og kjósa hann svo sem forseta!

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur