Ályktun vegna Samgönguáætlunar – Brothættar byggðir í Öxarfjarðarhéraði og á Raufarhöfn

0
145

Stjórnir verkefnanna Raufarhöfn og framtíðin og Öxarfjörður í sókn hafa samþykkt svohljóðandi ályktun vegna yfirvofandi niðurskurðar skv. frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 á nýlega samþykktri fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Ofangreind verkefni eru hluti af verkefninu Brothættar byggðir sem leitt er af Byggðastofnun með þátttöku sveitarfélaga, stoðstofnana og íbúum viðkomandi byggðarlaga.

Dettifoss. Mynd Hörður Jónassonfoss

Byggðarlögin tvö, Öxarfjarðarhérað og Raufarhöfn treysta á uppbyggingu í ferðaþjónustu til að snúa vörn í sókn og hefur á íbúaþingum verkefnanna verið lögð áhersla á mikilvægi þess að klára Dettifossveg til að auðvelda ferðafólki aðgang að svæðinu. Samþykkt fjögurra ára samgönguáætlunar í október síðastliðnum var af íbúum talin lokasigur í þeirri baráttu að koma veginum á dagskrá. Fregnir af yfirvofandi niðurskurði vegaáætlunar í fjárlagafrumvarpi er því mikið bakslag í því uppbyggingarstarfi sem unnið er að í Öxarfjarðarhéraði og á Raufarhöfn undir merkjum Brothættra byggða.

Verkefnisstjórnirnar skora á þingmenn að tryggja í fjárlögum fjármögnun Dettifossvegar samkvæmt nýsamþykktri þingsályktun um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018.

Á meðan að fregnir berast um hversu mikið álag sé á helstu ferðamannastaði á Suðvesturhorninu og að dreifing ferðamanna um landið þurfi að vera betri, skýtur það skökku við að skera niður í málaflokknum á fjárlögum.

Rökstuðningur: Í verkefninu Raufarhöfn og framtíðin er uppbygging ferðaþjónustu lykilatriði í að snúa vörn í sókn og skoraði næst hæst af málaflokkum sem ræddir voru á íbúaþingi. Samgöngur eru taldar afar mikilvægar í þessu samhengi og þá einkum Dettifossvegur, það er vegtenging frá Dettifossi niður á þjóðveg 85 í Kelduhverfi.

Á íbúaþingi í Öxarfjarðarhéraði í janúar 2016 kom fram að íbúar telja Dettifossveg vera afar brýnt hagsmunamál og algjöra nauðsyn í uppbyggingu ferðaþjónustu í héraðinu. Markmiðssetning verkefnisins endurspeglar ofangreindar áherslur.

Það að nú liggi fyrir frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 með niðurskurði á Dettifossvegi úr nýsamþykktri samgönguáætlun er í hróplegu ósamræmi við viðleitni ríkisins til að styðja þessi byggðarlög til sóknar í verkefninu Brothættar byggðir. Það er enn fremur í ósamræmi við þann grundvallarskilning á verkefninu að íbúar, stoðkerfi, sveitarfélag og ríki taki höndum saman í verkefnum til aukinnar viðspyrnu þessara byggðarlaga gegn hnignun. Þá er þessi áætlun einnig í ósamræmi við áherslur Eyþings í samgöngumálum og ekki til þess fallin að styðja við ferðaþjónustu almennt sem er þó einn af burðarstólpum í íslensku atvinnulífi.