Alvarlegt vinnuslys hjá PCC BakkaSilikon

0
367

Eins og fram hefur komið í fréttum varð vinnuslys hér hjá PCC BakkiSiliconuppúr klukkan 15 í gær. Framleiðsla kísilmálms fer fram í ljósbogaofni og þarf mjög reglulega að tappa málmi úr ofninum. Við það verk er notuð svokölluð byssa til að opna aftöppunargatið. Í gær endurkastaðist kúla frá byssunni í upphandlegg starfsmanns. Starfsmaðurinn var fluttur með sjúkrabíl til Akureyrar þar sem hann gekkst undir aðgerð í gærkvöldi. Hann hlaut ekki alvarlegan skaða af slysinu og er gert ráð fyrir að hann nái fullum bata. Byssan hefur verið tekin úr notkun meðan rannsókn á atvikinu fer fram. Farið verður yfir alla verkferla og í framhaldinu ráðist í þær breytingar sem skoðun verkferlanna kann að leiða í ljós að þurfi að lagfæra til að auka öryggi enn frekar.

Áður en ofnar PCC BakkiSilicon voru gangsettir fór fram mikil og ítarleg vinna varðandi viðbragðsáætlanir við slysum. Að gerð áætlunarinnar komu bæði starfsmenn PCC BakkiSilicon sem og viðbragðsaðilar á borð við slökkvilið og sjúkraflutningamenn. Í gær sýndi það sig að þetta starf margborgaði sig og viðbrögð starfsfólks í gær voru til fyrirmyndar. Þess er vert að geta að vaktin fékk hrós fyrir hárrétt viðbrögð frá sjúkraflutningamönnum sem komu á slysstaðinn.

PCC BakkiSilicon vill nota tækifærið og þakka viðbragðsaðilum kærlega fyrir skjót, örugg og fagmannleg viðbrögð. Einnig viljum við hrósa starfsfólki okkar fyrir góð viðbrögð vegna verkefna sem þurfti að leysa í kjölfar slyssins og þá fyrstu hjálp sem starfsmenn veittu.