Almenningur á heilbrigðisþjónustuna og allar tiltækar stofnanir henni tengdar

0
80

Frá því 1991 hefur staðið nær samfellt harðinda og niðurskurðartímabil í heilbrigðisþjónustunni – með örfáum og staðbundnum undantekningum.    Lengi vel stóðu sveitarstjórnarmenn og einstakir Alþingismenn af talsverðir einurð til varnar hagsmunum og gerðu jafnvel kröfur um uppbyggingu – bæði í gegn um þátttöku í stjórnum og með aðgangi að ríkisstjórn og lykilhlutverkum á Þinginu.

Benedikt Sigurðarson
Benedikt Sigurðarson

Svo lengi sem ég man hafa kvenfélög og fleiri almannasamtök verið afar drjúg og dugleg við að safna peningum til uppbyggingar og tækjakaupa á spítölum og heilsugæslustöðvum.   Sumar þessar stofnanir hafa þannig verið fjármagnaðar að umtalsverðu leyti með gjafafé frá almenningi.    Með því hefur þessi sami almenningur einmitt eignast ríkari hlutdeild – beinni eignarrétt– en almennt um opinberar stofnanir ríkis eða sveitarfélaga.

Á árinu 2009-2010 var gerð harkaleg tilraun til niðurskurðar á heilbrigðisstofnunum í dreifbýlinu.   Þá risu upp máttarstólpar samfélaga og börðust opinskátt og af nokkru harðfylgi gegn niðurskurðinum – og höfðu í mörgum tilfellum erindi.

Hægt var á niðurskurðinum og víða virtist áhrifum niðurskurðar dreift á lengri tíma – en samt var ekki snúið við.

Eyðilegging sjúkrahúsþjónustu um landsbyggðina hefur haft sinn framgang –  nú er búið að loka fjölmörgum skurðstofum og afleggja fæðingarþjónustu viðast hvar utan Akureyrar og Reykjavíkur.    Sú eðlisbreyting var gerð með lagabreytingu og samningum við sveitarstjórnarmenn 2006-2007 að heimamenn sögðu sig frá þátttöku og ábyrgð á stjórnun heilbrigðisstofnana.   Með því var innleitt forstjóra-einræði og duttlungavald ráðuneytisins í Reykjavík  þvert gegn öllum þekktum lögmálum um skilvirka og lýðræðislega stjórnsýslu og árangur í þjónustu.

Fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp leggur línur um áframhaldandi niðurskurð og skerðingu á þjónustu. Einbeitt viðbrögð lækna á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og greiður aðgangur þeirra að fjölmiðlum hefur ótvírætt orðið til þess að auka skilning á hættuástandi sem þar hefur skapast og almenna orðræðan bendir til að samstaða kunni að nást á Alþingi um að bæta 3-4 milljörðum við fjárframlögin til LSH.

Hins vegar fer nú lítið fyrir viðbrögðum víða um land til varnar sjúkrahúsum og heilbrigðisþjónustunni.    Ef eitthvað er sem virkilega rýrir lífsgæði og minnkar öryggi fjölskyldnanna í dreifðum byggðum þá er það niðurbrot á heilbrigðisþjónustu og lakara aðgengi. Eignaverð lækkar og möguleikar atvinnufyrirtækjanna til að laða til sín og halda í öflugt starfsfólk versna.

Á sama tíma er sjúkrabílum lagt og lokað á flutninga frá nærbyggðum.

Meðan á þessu gengur er afkoma í sjávarútvegi betri en nokkru sinni.      Ein einasta fjölskylda halar inn hreinum hagnaði upp á 16 milljarða á ári, en samt grenja tilteknir forkólfar LÍÚ bókstaflega af frekju.    Maður getur undrast að fyrirtæki sem blómstra skuli ekki hækka laun starfsmanna sinna almennt og orðalaust.    Yfir því mundum við flest gleðjast af heilum hug, en eitthvað hljómar það nú falskt þegar fyrirtæki kjósa frekar að kosta til utanlandsferðum heilla hópa starfsmanna til „að hafa menn góða“ fremur en að láta alla njóta í formi betri kjara.

Auðvitað eru til nógir peningar í samfélaginu sem enn er meðal 20 best sett í heiminum þrátt fyrir Hrunið.     Hins vegar er óþolandi að ríkissjóður skuli vera að borga 90 milljarða á ári í ónauðsynlega vexti af lánum sem tekin voru að mestu til að greiða fyrir endurreisn alltof stórs bankakerfis og gjaldþrota Seðlabanka.

Bankakerfið er 30-50% of stórt skv. McKinsey skýrslunni sem kom út í fyrra – og hefur verið að rúlla upp hagnaði frá hruni sem senn nær 300 milljörðum.   Almenningur og fyrirtækin um land allt eru hins vegar í skuldaklóm – og bera alltof háa kostnaðarbyrði af handstýrðum vöxtum Seðlabankans sem skákar í skjóli gjaldeyrishaftanna með „sýndarveruleika“sem virðist mklum mun fjær raunheiminum en tölvuleikurinn Eve-Online.

Peningar eru til – þeim er hins vegar bæði  illa varið og ranglátlega skipt.

Hér með leyfi ég mér að skora á allan almenning að taka til varna fyrir heilbrigðisþjónustu og krefjast áframhaldandi og helst bætts aðgengis að sérfræðilæknisþjónustu.

Konur og karlar sýnið nú dug og dómgreind  – og þótt „máttarstólparnir“ séu evt. uppteknir við að vera vinir valdamanna í ríkisstjórn – þá þarf einfaldlega ekki á þeim að halda ef þeir skilja hvorki  þörf néneyð síns samfélags.

Benedikt Sigurðarson.