Algjörlega mótfallin sameiningu FL og VMA

0
112

Ég er algjörlega mótfallin þeim hugmyndum sem koma úr Menntamálaráðaneytinu um að sameina Framhaldsskólann á Laugum og VMA og einnig að sameina Framhaldsskólann á Húsavík, Menntaskólann á Tröllaskaga og MA”, sagði Valgerður Gunnarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Austurkjördæmi og fyrrverandi skólameistari Framhaldsskólans á Laugum í spjalli við 641.is nú í kvöld.

Valgerður Gunnarsdóttir
Valgerður Gunnarsdóttir

“Framhaldsskólinn á Laugum, Framhaldsskólinn á Húsavík og Menntaskólinn á Tröllaskaga skipta gríðarlega miklu máli fyrir sveitarfélögin sem þeir starfa í. Þeir skipta gríðarlega miklu máli fyrir unglinganna sem sækja námið víðsvegar að af landinu og fyrir unglingana sem geta sótt nám í sinni heimabyggð. Framhaldsskólinn á Laugum hefur átt gott samstarf við VMA varðandi fjarnám, en ég er algjörlega mótfallin sameining skólanna. Mín sýn og trúmennska gagnvart Framhaldsskólanum á Laugum hefur ekkert breyst. Ég hef alltaf lagt áherslu á, að það er mjög auðvelt að glutra ríkisstofnun úr héraði en mjög erfitt að fá ríkisstofnum í héraðið og þess vegna skiptir miklu máli að við höldum vel utan um þær stofnanir sem við höfum fyrir”. sagði Valgerður Gunnarsdóttir ennfremur.

Valgerður sagði að hún hefði nú þegar gert ákveðnar ráðstafanir vegna málsins og hefur hún rætt við Illuga Gunnarsson Menntamálaráðherra og hans aðstoðarmenn um það. Auk þess hefur Valgerður óskað eftir því að málið verði rætt á þingsflokksfundi hjá Sjálfstæðisflokknum á miðvikudaginn kemur.