
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri EIMS. Að EIMI standa Eyþing – samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Landsvirkjun, Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur ásamt Íslenska ferðaklasanum, Íslenska jarðvarmaklasanum og atvinnuþróunarfélögum á svæðinu.

Í tilkynningu segir að Albertína sé landfræðingur og félagsfræðingur að mennt og hafi undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri atvinnumála hjá Akureyrarbæ. Þá hefur hún einnig starfað sem verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Ísafirði og verkefnastjóri og kennari hjá Háskólasetri Vestfjarða.
Stofnfundur EIMS var haldinn í byrjun júní s.l. en markmið verkefnisins er að stuðla að aukinni sjálfbærni samfélaga á svæðinu með fjölbreyttari nýtingu orkuauðlinda á Norðausturlandi og samspili samfélags, umhverfis, auðlinda og efnahags. EIM er ætla að skapa jarðveg fyrir nýsköpunar og þróunarverkefni með áherslu á verðmætasköpun í víðum skilningi ásamt því að auka meðvitund almennings og fyrirtækja á málaflokknum.
Verkefninu er sérstaklega ætlað að ýta undir rannsóknir og nýtingu á svo nefndum hliðarstraumum í orkuvinnslu, iðnaði, landbúnaði o.s.frv. Hliðarstraumar geta verið fólgnir jafnt í ónýttri orku og ónýttu hráefni sem í dag fellur ónýtt til við hlið hinnar hefðbundnu framleiðslu. Þekkt dæmi í þessum efnum er ónýtt varmaorka í raforkuframleiðslu og iðnaði og ónýttar hliðarafurðir í iðnaði, fiskvinnslu og landbúnaði.
Miklar vonir eru bundnar við að með verkefninu megi leggja grunn að margbreytilegri nýsköpun og þar með atvinnusköpun á svæðinu. Horft er til þess að til samstarfsins komi aðilar í ferðaþjónustu, iðnaði og framleiðslu hverskonar og rannsóknaraðilar m.a. úr skólasamfélaginu. Síðast en ekki síst er horft til þess að með þessu starfi verði til fjárfestingartækifæri fyrir jafnt fyrirtæki á svæðinu, fjárfestingarsjóði og aðra fjárfesta jafnt innlenda sem erlenda.
Stofnaðilar leggja til verkefnisins stofnfé að fjárhæð um eitthundrað milljónir og er verkefninu ætlað að standa í a.m.k. þrjú ár segir í tilkynningunni.
