Akureyri vikublað hættir

0
366
Bjorn-Thorlaksson
Björn Þorláksson – Mynd: akureyri.net

Af akureyri.net

Yfirlýsing frá Birni Þorlákssyni

Kæru lesendur

Í dag barst mér tölvupóstur frá Fót­spori ehf, útgefanda Akureyrar vikublaðs, þar sem mér var tilkynnt án fyrirvara að Fótspor hefði ákveðið að hætta út­gáfu blaðsins frá og með deg­inum í dag. Fótspor hef­ur m.a. gefið út Ak­ur­eyri viku­blað, Reykja­vík viku­blað, Öld­una, Birtu, Sleggj­una og ýmis bæj­ar- og lands­hluta­blöð.

Ég tel sem ritstjóri rétt að upp­lýsa les­end­ur Ak­ur­eyr­ar viku­blaðs og lesendur fréttavefjarins akureyri.net um þetta, því blöð hafa trúnað og upplýsingaskyldu við lesendur, því gleyma útgefendur stundum. Mestallt efni blaðsins okkar hefur síðari misseri birst á fréttavefnum akureyri.net og hefur samstarfið verið afar farsælt. Það er með sorg í hjarta sem ég upplýsi almenning  um þessi tímamót en breytingum fylgja oftast ný tækifæri.

Saga Akureyrar vikublaðs sem gagnrýnins staðarblaðs á Akureyri hefur verið farsæl saga í upplýsingalegu og lýðræðislegu tilliti og hrýs mörgum hugur við þeim veruleika að 20.000-30.000 manna íbúasvæði á Norðurlandi verði án gagnrýnins staðarmiðils í framtíðinni, enda segir fjölmiðlafræðin að eftirlits- og aðhaldshlutverk fjölmiðla, varðhundshlutverkið, sé eitt mikilvægasta hlutverk blaðamennskunnar. Því er ekki að leyna að litlir fjárfestar, leikmenn og fagfólk hefur þegar haft samband við mig á þeim skamma tíma sem liðinn er síðan landsfjölmiðlar sögðu fréttina af örlögum Fótspors ehf fyrr í dag. Ýmsir hafa lýst áhuga á að stofnsetja nýtt blað á gagnrýnum grunni í stað Akureyrar vikublaðs. Ég útiloka ekki aðkomu að nýju gagnrýnu staðarblaði og fagna þeim hugsjónum og eldmóð sem fram hefur komið í samtölum við fólk á tímum þar sem mikil áhrif í fjölmiðlaheiminum hafa færst á æ færri hendur, í blóra við heilbrigt lýðræði.

Norðlenskur almenningur má vænta þess að fá frekari upplýsingar um framvindu mála á næstu dögum. Ofarlega í huga er mér á þessari stundu þakklæti fyrir allan þann stuðning sem Akureyri vikublað hefur notið hér í héraði síðastliðin fjögur ár þótt þeir fyrirfinnist einnig sem myndu fagna því ef gagnrýnin blaðamennska legðist af í héraðinu. Akureyri vikublað hefur alltaf verið tilbúið að hjóla í valdhafa, pólitískt og efnahagslegt vald. Án ykkar stuðnings hefði okkur aldrei tekist að gefa út tæp 200 tölublöð. Fyrir það ber að þakka, hvað sem líður næstu skrefum.

Björn Þorláksson