Ákall frá sýslumanninum á Húsavík

0
264

Innanríkisráðherra hefur borist ákall frá sýslumanninum á Húsavík vegna skorts á lögreglumönnum í umdæminu. Viðbragðstími getur verið hálf þriðja klukkustund.

Svavar Pálsson sýslumaður
Svavar Pálsson sýslumaður

Innanríkisráðherra kynnti ríkisstjórn á föstudag skýrslu þverpólitískrar nefndar sem telur að hækka þurfi framlög til löggæslunnar um þrjá og hálfan milljarð króna og fjölga lögreglumönnum um 236. Ráðherrann kynnti einnig bréf Svavars Pálssonar, sýslumanns Þingeyjarsýslu, um alvarlega stöðu mála þar.

Svavar segir þetta í rauninni ákall af hálfu stjórnenda embættisins til að finna lausnir á þeim vandamálum sem geti orðið og hafi að sumu leyti orðið.

 

 

Svavar segir að löggæsla í umdæminu sé undir öryggismörkum. Þá hafi hann miklar áhyggjur af þeim lögreglumönnum sem þurfi að vera einir á vakt. Viðbragðstími lögreglunnar geti orðið mjög langur. Á forgangsakstri frá Húsavík við þær aðstæður, þar sem lögreglumaður á  Þórshöfn sé ekki á vakt og ekki tiltækur á bakvakt, sé útkallstími hartnær tveir tímar. Það séu þó ekki mörk umdæmisins því hann geti þurft að fara til Bakkafjarðar og þá séu þetta tveir og hálfur tími.(ruv.is)