Áhrif flóða í kjölfar mögulegs eldgoss í Bárðarbungu

0
376

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Viðlagatrygging Íslands hafa unnið skýrslu„sem hafði það að megin markmiði að greina áhrif flóða í kjölfar eldgoss í Bárðarbungu vegna þriggja sviðsmynda, flóði í Jökulsá á Fjöllum, flóði á vatnasvæði Þjórsár og Tungnaár og flóð í Skjálfandafljóti. Flóð til norðurs í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljóti hefur að öllum líkindum umtalsverð áhrif innan flóðasvæðisins á hvorum stað. Áhrifamat vegna eldgoss í Bárðarbungu sem myndi skila flóði á vatnasvæði Þjórsár og Tungnaár gefur til kynna að um sé að ræða alvarlegustu áhrif á íslenskt samfélag sem almannavarnir hafa komið að því að greina, að undanskildum hernaðarógnum fyrri tíma. Frá þessu er sagt á vef Almannavarna

Skjáskot úr skýrslunni. smella á til að stækka
Skjáskot úr skýrslunni. Smella á til að skoða nánar

Flóð í Skjálfandafljóti.

Miðað er við að eitt hlaup komi í Skjálfandafljót með um 5.000 m3/s hámarksrennsli og vari í tvo sólarhringa með jakaburði í sjó fram. Öskufall er mest næst gosstað. Í rúmlega 100 km fjarlægð frá gosstað er gjóskufall innan við 1 cm á þykkt.
Skjálfandafljót á upptök sín í norðanverðu Vonarskarði, undan Vatna- og Tungnafellsjökli, fellur milli Sprengisands og Ódáðahrauns niður í byggð í Bárðardal og síðan á mörkum Köldukinnar og Aðaldals út í Skjálfandaflóa. Þar til komið er að Suðurárhrauni Ódáðahrauns, við mynni Bárðardals, fer farvegurinn mest um sanda og auðnir.

Farvegur hlaups frá Bárðarbungu niður í byggð í Bárðardal er um 90 km langur. Gert er ráð fyrir að hlaup nái hámarksrennsli á hálendi við jökulinn á nokkrum klukkustundum. Flóðtoppur mun breiða úr sér á flötum söndum ofan dalsins. Þegar kemur niður í Bárðardal hefur flóð ferðast um 90 km leið og mun taka lengri tíma að ná hámarksrennsli en á hálendinu ofar. Við Aldeyjarfoss má gera ráð fyrir að rennsli verði margar klukkustundir að aukast í hámarksrennsli. Líklegur ferðatími flóðtopps niður í byggð er tekinn saman í töflunni hér fyrir neðan.

Skjálfandafljót -tími

Fljótið heldur sig að mestu í núverandi farvegi í Bárðardal en breiðist um dalsbotninn. Þar kann vatnsdýpi að verða 0,5 – 1 m. Búast má við svipaðri vatnsdýpt neðan brúar í Skriðuhverfi. Gjóskufall er mest í óbyggðum í grennd við gosstað. Dreifing gjósku frá gosstað ræðst af vindátt. Nokkurra cm gjóska gæti fallið: sunnarlega í Bárðardal og í Eyjafirði, syðst í Fljótsdal og/eða, á svæðinu frá Öræfasveit að Hornafirði. Líklegur ferðatími flóðtopps frá gosstað að jökuljaðri gæti verið um 0,5 klst.

Jökulsá á Fjöllum - flóð

 Flóð í Jökulsá á Fjöllum.

Nokkur hlaup koma í Jökulsá á Fjöllum með nokkurra daga millibili, það stærsta með um 20.000 m3/s hámarksrennsli sem varir í fimm sólarhringa, með jakaburði í sjó fram. Öskufall er mest næst gosstað. Í rúmlega 100 km fjarlægð frá gosstað er gjóskufall innan við 1 cm á þykkt.

Jökulsá á Fjöllum á upptök undan norðanverðum Vatnajökli (Dyngjujökli) í tveimur megin kvíslum og fellur í Öxarfjörð. Víðast er auðn á þessu svæði niður að árósi í Kelduhverfi. Farvegur hlaups frá Dyngjujökli að Lambafjöllum við Möðrudal er um 90 km langur. Gert er ráð fyrir að hlaup nái hámarksrennsli á hálendi við jökulinn á nokkrum klukkustundum. Flóðtoppur mun breiða úr sér á flötum söndum ofan Lambafjalla og kvíslast austur fyrir fjöllin í átt að Möðrudal. Þegar kemur niður að Grímsstöðum hefur hlaupið ferðast um 110 km leið og mun taka lengri tíma að ná hámarksrennsli en við jökuljaðar. Neðan Grímsstaða taka við djúp gljúfur niður í Kelduhverfi. Ólíklegt er að flóðtoppur dempist mikið á þeirri leið. Líklegur ferðatími flóðtopps niður í byggð er tekinn saman í töflunni að neðan.

Jökulsá á Fjöllum -tími

Við Grímsstaði rennur hlaupið að hluta upp úr núverandi farvegi yfir í Klaufaskurð (dýpi um 7 m) sem sameinast núverandi árfarvegi um 10 km neðar og fylgir gljúfrum niður í byggð í Kelduhverfi. Neðan brúar í Öxarfirði er líkleg flóðdýpt vestan farvegar árinnar um 5 m. Á láglendi í Kelduhverfi mun hlaupvatn hægja á sér og breiða úr sér og renna í nokkrum megin kvíslum til sjávar. Flóðdýpt gæti orðið nokkrir metrar við bæi næst meginkvíslum. Þar yrði flóðhraði jafnframt mestur. Líklegur ferðatími flóðtopps frá gosstað að jökuljaðri gæti verið 1 – 1,5 klst.

Flóð í Þjórsá / Tungnaársvæði.

Áhrif stórflóðs á vatnasvæði Þjórsár og Tungnaár hefði mikil áhrif innan flóðasvæðisins en auk þess gríðarleg áhrif á alla helstu innviði landsins og um leið grunnstoðir samfélagsins. Sú mikla röskun sem verður á raforkuframleiðslu og raforkuflutningi, fjarskipti og samgöngur er meginástæða þeirra gríðarlegu áhrifa sem talið er að slíkar hamfarir gætu valdið.

Áhrifamat vegna eldgoss í Bárðarbungu sem myndi skila flóði á vatnasvæði Þjórsár og Tungnaár gefur til kynna að um sé að ræða alvarlegustu áhrif á íslenskt samfélag sem almannavarnir hafa komið að því að greina, að undanskildum hernaðarógnum fyrri tíma. Sviðsmyndin bendir til þess að langvarandi efnahagsleg og samfélagsleg áhrif yrðu um land allt.

Skoða skýrsluna hér: Greining_a_ahrifum_floda_i_kjolfar_eldgosa_i_Bardarbungu_utgafa_2