Ágætu sveitungar

0
89

Ég hef á tilfinningunni að það hafi ekki allir lesið skýrsluna Mat á skólamálum í Þingeyjarsveit, en hún var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, fyrir Þingeyjarsveit í apríl 2010, en leyfi mér því að setja niðurlag hennar hér að neðan. Skýrsluna má finna á vef Þingeyjarsveitar.

Friðgeir Sigtryggsson
Friðgeir Sigtryggsson

Það vekur upp margar spurningar ef rétt er að Samstöðuhópurinn hafi nú þegar tekið ákvörðun staðsetningu Þingeyjarskóla að Hafralæk, hafandi þessa skýrslu undir höndum. Í upphafi kaflans um Framhaldsskólann eru mjög ákveðinn skilaboð til sveitarstjórnar, ekki hugmynd heldur nánast eins og tilmæli, en mér sýnist það ekki algengt í þessum skýrslum öllum : “Það ætti að vera forgangsmál”  Hvernig var hægt að hundsa þetta svona algjörlega og taka stefnu þvert á skýrsluna?

Það getur vel verið að Samstöðu takist þetta ætlunarverk sitt en í mínum huga yrði það tjón fyrir okkur öll þar sem varla yrði um nema bráðabirgða gjörning að ræða. Ég trúi því að við eigum eftir að kjósa yfir okkur sveitarstjórnarmeirihluta sem ræður við að reka sveitarfélagið með heildarhagsmuni þess að leiðarljósi, en þá hlyti þetta að verða leiðrétt.

Hér koma tveir síðustu kaflar skýrslunnar:

Hvaða áhrif hefur hugsanleg staðsetning grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla á Framhaldsskólann á Laugum?

Framhaldsskólinn á Laugum er „álversvinnustaður“ sveitarfélagsins. Það ætti að vera forgangsmál hjá sveitarfélaginu að styrkja hann og nota starfssemi hans sem grunn til að byggja upp og efla samfélagið. Reynslan sýnir að börn úr Hafralækjarskóla og Stórutjarnarskóla sækja frekar í aðra framhaldsskóla en börn úr Litlulaugaskóla hafa sterkari tengsl við sinn „heimaskóla“. Uppbygging grunnskóla á Laugum sem gæti starfað í nánum tengslum við framhaldsskólann myndi hafa jákvæð áhrif á á tvennskonar hátt. Í fyrsta lagi  ætti framhaldsskólinn tryggara bakland í nærsamfélaginu og í annan stað má ætla að hann fengi meiri og kerfisbundnar endurgjöf á námsframboð sem gæti skerpt faglegar áherslur hans. Ætla mætti að slík uppbygging myndi einnig skapa sveitarfélaginu sérstöðu þar sem fáir ef nokkrir staðir geta státað af samþættaðri skólaþjónustu frá leikskólastigi upp á framhaldsskólastig. Þetta myndi með öðrum orðum skapa möguleika á skapandi þróunarstarfi í menntamálum.

Á sama hátt má ætla að flutningur grunnskólastigs frá Laugum myndi hafa neikvæðar afleiðingar fyrir Framhaldsskólann og um leið þéttbýlið. Framhaldsskólinn ætti erfiðara með að skapa og viðhalda tengslum við grunnskólabörn og verið væri að skerða þjónustu í þéttbýlinu. Það ber þó að varast að stilla hlutunum upp þannig að þetta sé val á milli uppbyggingar fyrir þéttbýli sveitarfélagsins eða dreifbýlið. Rétt er að taka útgangspunkt í þeirri spurningu hvernig hægt sé að efla þjónustu fyrir íbúa sveitarfélagsins alls og ástæða fyrir því að mikilvægi þjónustu í þéttbýli er undirstrikað hér er að það er ákveðin grunnstoð í samfélaginu sem ber að varast að veikja.

Ef einn sameinaður grunnskóli yrði byggður upp á Laugum liggur einnig beint við að sameinaður tónlistarskóli og leikskóli yrði starfræktur þar einnig. Eins og áður hefur komið fram er færsla leikskóla þó ákveðnum vandkvæðum bundið. Líklegt er t.d. að leikskóli yrði enn um sinn að vera starfandi á Stóru Tjörnum einfaldlega vegna fjarlægðar.

Að lokum

Svör við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hníga öll að sömu rökum. Í fyrsta lagi, að hagstæðast sé, útfrá fjárhagslegum, faglegum og samfélagslegum forsendum að byggja upp eina skólastofnun á Laugum sem samþættaði grunnskóla og tónlistarskóla og jafnvel leikskólastig einnig, að minnsta kosti á þann hátt að það væri undir sömu stjórn þó að starfið væri unnið á ólíkum stöðum. Í öðru lagi, að þessi uppbygging er ekki raunhæf eins og sakir standa í efnahagsmálum. Það verður þó ekki ljóst nema látið sé reyna á það. Í þriðja lagi, að skref í rétta átt sé að hefja sameiningarferli. Það getur haft mismunandi útfærslur en þær sem nefndar hafa verið hér hafa allar faglega og félagslega kosti. Óvissa ríkir um hvort að fjárhagslegur ávinningur verði strax af þeim breytingum. Í fjórða lagi, að koma skólastofnununum undir eina yfirstjórn þar sem leik- og tónlistarstarskólar væru einnig innan vébanda skólans.

Ljóst er að út frá samtölum við þann breiða hóp fólks sem rætt var í tengslum við þetta mat, að sama hvaða breytingar verður farið út í munu þær ávallt mælast misjafnlega fyrir. Þar af leiðandi er hvatt til þess að sveitastjórnin hafi upplýsingarflæði til íbúa gott og vinnuferli vegna breytinga gagnsætt. Jafnframt, þegar kemur að starfsmannamálum skólana og öllum rekstri þeirra, að það sé ljóst að allir starfsmenn þessara þriggja skóla sitji við sama borð og ef segja á upp vegna tilfærsla þá verði öllum sagt upp og endurráðið inn í þær stöður sem til verða í breyttu fyrirkomulagi.

Í skýrslu sem þessari er ekki hægt að draga upp svart-hvíta mynd af aðstæðum. Óvissa um fjárhagslegar stærðir gerir erfitt um vik að setja fram hreina og klára hagkvæmnisútreikninga. Rík krafa kom fram hjá viðmælendum um að allar breytingar ættu fyrst og fremst að byggja á faglegum og samfélagslegum forsendum og gildum þar sem hagsmunir barnanna ættu að vera í hávegum. Slík gildi eru sjaldan einhlít og hefur því verið leitast við að draga fram ólíkar skoðanir, mismunandi möguleika og þær tillögur sem hagsmunaaðilar sjá helstar fyrir sér að muni bæta og efla skólahald í Þingeyjarsveit. “

Friðgeir Sigtryggsson