Áframhaldandi undirbúningur og útboð vegna Þeistareykjavirkjunar

0
75

Landsvirkjun heldur áfram undir-búningi fyrir jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum á Norðaustur-landi. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að umfangsmiklar undirbúnings-framkvæmdir hafi átt sér stað í sumar. Opnuð hafa verið tilboð í vélasamstæður og auglýst útboð fyrir byggingu stöðvarhúss og gufuveitu. Framhald og framkvæmdahraði verkefnisins mun þó áfram ráðast af orkusölusamningum, aðstæðum á raforkumarkaði og þeim tilboðum sem berast. Gangi áætlanir eftir er gert ráð fyrir að orkuafhending frá virkjuninni geti hafist í október 2017. Frá þessu er greint á 640.is

Frá fundinum á Húsavík. Mynd Gaukur Hjartarson
Frá fundinum á Húsavík.

Unnið hefur verið að uppbyggingu jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi til fjölda ára en rannsóknir gefa til kynna að jarðhitasvæði þar bjóði upp á mikla möguleika. Fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 200 MW virkjun á Þeistareykjum.

 

Gert er ráð fyrir að 45-90 MW virkjun verði fyrsta skref í varfærinni uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu.

Fyrirhuguð jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum mun efla orkuvinnslu á Norðausturlandi og mæta væntanlegri spurn eftir raforku frá iðnaðarstarfsemi á Bakka við Húsavík. Virkjunin mun auka afhendingaröryggi raforku á Norðausturlandi og skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.

Undirbúningsframkvæmdir í sumar

Undirbúningsframkvæmdir á Þeistareykjum hafa miðað að því að hægt væri að hefja framkvæmdir með stuttum fyrirvara. Standa nú yfir álagsprófanir á jarðhitakerfi Þeistareykja. Með prófuninni er líkt eftir orkuvinnslu fyrirhugaðrar virkjunar og fæst þannig staðfesting á afkastagetu þeirra borholna sem búið er að bora.

Aðrar undirbúningsframkvæmdir telja byggingu Þeistareykjavegar, en vegurinn liggur frá Húsavík inn á virkjunarsvæðið. Vinnubúðum hefur verið komið upp og framkvæmdasvæðið raf- og fjarskiptavætt. Jarðvegsframkvæmdir vegna stöðvarhúss voru unnar í sumar, sem og lagning vatnsveitu.

Opnun tilboða í vélar og fleiri útboð fyrirhuguð

Í síðustu viku voru opnuð tilboð í vélasamstæður fyrir fyrsta og annan áfanga en vél fyrir annan áfanga er valkvæð. Fjögur fyrirtæki sendu inn tilboð, Fuji, Toshiba, Mitsubishi og Alstom. Tilboðin sem bárust voru mjög hagstæð og var lægsta tilboðið um 75% af kostnaðaráætlun fyrir vélar, sem hljóðaði uppá tæpar 105 MUSD (13 Ma.kr.). Á næstu vikum verður unnið að yfirferð tilboða og skýringarviðræðum við bjóðendur.

Útboð á byggingu stöðvarhúss var auglýst um síðustu helgi og útboð á byggingu gufuveitu verður auglýst um næstu helgi. Auk þess eru fyrirhuguð önnur smærri útboð vegna efniskaupa til virkjunarinnar. Opnun tilboða í byggingar og gufuveitu munu fara fram í janúar á næsta ári og gert er ráð fyrir samningum við verktaka á vormánuðum.

Meginlínur í framkvæmdaáætlun

Gangi áætlanir eftir er gert ráð fyrir að stöðvarhús og gufuveita verði byggð á árunum 2015-2016 og á árinu 2017 verði unnið að uppsetningu á búnaði, vélum, aflspennum, svæðisstjórnarkerfum og stöðvarveitum. Afhending orku frá fyrsta áfanga (45 MW) verði í október 2017.

Allar ofangreindar tímasetningar eru háðar mögulegum breytingum á áætlunum um framhald verkefnisins. (landsvirkjun.is)

Nánar um Þeistareykjavirkjun

Meðfylgjandi mynd tók Gaukur Hjartarson á opnum fundi um Þeistareykjavirkjun sem Landsvirkjun stóð fyrir á Húsavík í fyrradag.