Áframhaldandi pælingar

0
99

Í dag er sléttur mánuður þar til frestur rennur út til þess að skila inn framboði til sveitarstjórnarkosninga. Sú spurning hefur leitað á mig með að bjóða fram krafta mína (sjá m.a. grein á 641.is 7.4. sl.). Þar sem ég hef nú komist að þeirri niðurstöðu að ég sé ekki eingöngu reiðubúinn heldur líka mjög áhugasamur um þetta mál er ég nú opinberlega á höttunum eftir fleira fólki sem hefur vilja og getu til þess að leggja sig fram og vinna að heilindum til heilla fyrir sveitarfélagið Þingeyjarsveit.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

 

Umræddir aðilar þurfa að vera reiðubúnir til þess að setjast í sveitarstjórn og starfa í fastanefndum sveitarfélagsins til a.m.k. næstu fjögurra ára. Takist mér að finna að lágmarki 6 einstakling með mér á slíkan lista mun ég, ásamt þeim þurfa að leita fleirum sem ekki þurfa að takast á við frekari skyldur en þær að undirrita stuðningsyfirlýsingu við framboðið.

 

Svo að samstarf megi verði farsælt er nauðsynlegt að vita hvar menn standa. Hér koma því skoðanir mínar í heitasta málinu í sveitarfélaginu, skólamálum. Ég skora á þá sem geta ekki tekið undir skoðanir mínar, en hafa engu að síður áhuga á því að starfa í sveitarstjórn, að kalla saman sín eigin framboð en bíð þeim, sem telja sig geta starfað með mér að hafa samband.

Ég tel að breytinga hafi verið þörf í skólamálum og að stofnun Þingeyjarskóla hafi verið tilraun til þess að mæta henni. Ég tel að í því ferli sem fór af stað hafi verið gerð mörg mistök og því stefni í óefni, þrátt fyrir vilja margra til þess að fá þetta dæmi til að ganga sem hnökralausast upp. Af þessum sökum tel ég farsælast að fyrsta verk nýrrar sveitarstjórnar verði að leggja niður Þingeyjarskóla og stofna á ný Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla. Út frá þeirri stöðu verði síðan unnið að framtíðarskipulagi skólamála Þingeyjarsveitar. Þau sé ég fyrir mér að gætu verið eitthvað á þessa leið:

  1. Ráðinn verður fræðslustjóri Þingeyjarsveitar og verði hann yfirmaður skólastjóranna. Hann starfi náið með skólastjórunum og taki yfir hluta af skyldum þeirra. Verkefni hans sé jafnframt að tryggja að skólarnir starfi saman og leiti leiða til þess að efla tengsl milli nemenda og starfsmanna skólanna.
  2. Við skólanna þrjá starfi engir aðstoðaskólastjórar þar sem fræðslustjóri tekur nú yfir hluta af verkefnum skólastjóranna en áfram verði deildarstjórar yfir leikskóla- og tónlistarskóladeildum í öllum skólunum.
  3. Komi ekki fram vísbendingar um umtalsverða fjölgun grunnskólabarna í sveitarfélaginu, á skólasvæði Hafralækjarskóla og Stjórutjarnarskóla, á næstu þremur árum færist haustið 2017 öll kennsla á unglingastigi frá Hafralæk og Stórutjörnum á Laugar. Undirbúningur hefjist strax á næsta ári svo af þessu megi verða. Þar sem ljóst er að langt er fyrir íbúa í Fnjóskadal að sækja skóla í Lauga skulu strax á næsta ári teknar upp viðræður við Svalbarðsstrandarhrepp þar sem það skal kannað hvort áhugi og vilji sé til samstarf um að taka við nemendum yfir í Valsársskóla.
  4. Með sömu viðmið í íbúaþróun og fyrr myndi síðan hugsanlega haustið 2020 öll kennsla á miðstigi færast frá Hafralæk og Stjórutjörnum á Laugar (og þá hugsanlega hluti í Valsársskóla).
    Við þetta sama tækifæri verði lagðar niður stöður deildarstjóra tónlistarskóladeilda á Hafralæk og Stórutjörnum.
  5. Þar sem ljóst er að bæði Hafralækjarskóli og Stórutjarnarskóli eru stærri hús en þarf til að reka skóla fyrir u.þ.b. þrjátíu eins til níu ára börn skal leitað hagkvæmra leiða í þeim efnum. Á báðum stöðum skal þó áfram stefnt að því að reka leik- og grunnskóla fyrir þennan aldurshóp.

    Aðalsteinn Már Þorsteinsson Hjalla Reykjadal.