Áframhaldandi gosvirkni

0
131

Nú er talið að sprungan þar sem eldgosið hófst um miðnætti í Holuhrauni norður af Dyngjujökli sé ríflega 1 km að lengd. Gosið hefur verið rólegt í alla nótt, engin aska sést á radarmælingum og lítil hætta er talin á flóði. Þetta kemur fram á vef Almannavarna.

Eldgosið núna kl 9:45. Skjáskot af vefmyndavél Mílu
Eldgosið núna kl 9:45. Skjáskot af vefmyndavél Mílu

Flugbannsvæði er 10 sjómílur í kringum eldstöðina og nær það upp í 5.000 fet yfir jörðu.

Allt flug er því bannað á þessu svæði, að vísindaflugi landhelgisgæslunnar undanskildu. 

Allir áætlunarflugvellir landsins eru opnir.

 

 

 

 

Lokanir norðan Vatnajökuls eru enn í gildi.Lögregla og hópar frá björgunarsveitum á Norðausturlandi sinna lokunum inn á mögulegt áhrifasvæði gossins. Hópur sem var á hálendisvakt björgunarsveita í Landmannalaugum styrkir lokanir á Gæsavatnaleið. Á fjórða tug björgunarsveitamanna taka þátt í aðgerðum sem stendur.

Áfram verður fylgst með framvindunni.

Uppfært kl 12:00

Ríkislögreglustjóri hefur að höfðu samráði við lögreglustjóranna á Húsavík og Seyðisfirði ákveðið að færa almannavarnastig af neyðarstigi aftur niður á hættustig vegna eldgossins í Holuhrauni sem hófst um miðnætti og lauk um kl. 4 í nótt.

Ákvörðunin er byggð á mati vísindamanna í Vísindaráði á stöðunni eins og hún er núna. Enn er mikil jarðskjálftavirkni í gangi og óljóst hver framvindan verður og er fólk því beðið að fylgjast náið með fréttum um stöðu mála.

Lokanir í Jökulsárgljúfrum að Dettifossi að vestanverðu eru enn í gildi sem og lokanir á hálendinu norðan Vatnajökuls.

Klukkan 10 í morgun færði Veðurstofa Íslands litakóðann fyrir flug yfir Bárðarbungu á appelsínugulan þar sem ekki er talið líklegt að aska berist upp í lofthjúpinn. Litakóði fyrir flug yfir Öskju er enn gulur. Öllum takmörkunum á flugi hefur verið aflétt.