Af ófærð, aflýsingum og lokuðu Víkurskarði

0
72

Vegna illviðris og ófærðar varð að fella niður kennslu í Stórutjarnaskóla í gær, mánudag. Í dag er foreldradagur og flestir hafa náð að mæta en þó eru nokkrir fastir heima hjá sér og einhverjir jafnvel í öðrum landshlutum. Þetta er því miður ekki í fyrsta skiptið í vetur sem aflýsa hefur þurft skóla, enda hefur tíðarfarið að ýmsu leyti verið með verra móti. Það fylgist nokkuð að, að þegar við þurfum að loka skólanum vegna veðurs verður Víkurskarðið líka ófært. Frá þessu er sagt á heimasíðu skólans í dag.

Við Stórutjarnaskóla í dag.Mynd: Jónas Reynir Helgason
Við Stórutjarnaskóla.
Mynd: Jónas Reynir Helgason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það verður æ algengara þegar það gerist að vegfarendur sem koma úr austurátt, leiti skjóls í Stórutjarnaskóla og fái jafnvel að gista, standi lokun Skarðsins lengi yfir. Þannig hefur ástandið einmitt verið frá sunnudagskvöldi. Þá komu hér fimm manns sem ekki komust yfir Víkurskarðið og fengu að gista. Og enn var lokað í gær og enn bættist í hóp hinna óheppnu vegfarenda. 12 manns gistu því í Stórutjarnaskóla s.l. nótt. En í morgun opnaðist loks yfir Skarðið og þá komust allir leiðar sinnar, frelsinu fegnir. Því má segja að maður komi í manns stað, – þegar nemendur komast ekki í skólann vegna ófærðar tökum við í staðinn inn óheppna ferðalanga og reynum að sjálfsögðu að veita þeim viðunandi viðurgjörning, ekki síður en nemendum.