Aðför að framhaldsskólunum

0
203

Fréttir af hugsanlegri sameinigu Framhaldsskólans á Laugum og Verkmenntaskólans á Akureyri og fréttir af hugsanlegri sameiningu Framhaldsskólans á Húsavík, Menntaskólans á Tröllaskaga og Menntaskólans á Akureyri vöktu mikla athygli og óhug margra í Þingeyjarsveit, Norðurþingi og í Fjallabyggð í liðinni viku. Þessar hugmyndir Illuga Gunnarssonar Menntamálaráðherra voru kynntar skólameisturum framangreindra skóla sl. miðvikudag á fundum á Akureyri. Ekkert samráð hafði verið haft við einn né neinn um þessar hugmyndir og svo virðist sem Menntamálaráðherra sé einn á ferð með þetta mál.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is
Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

Framhaldsskólar þurfa að vera sjálfstæðir, en rétt eins og Valgerður Gunnarsdóttir þingmaður og fyrrverandi skólameistari Framhladsskólans á Laugum nefnir í frétt hér á 641.is sl. mánudag, geta þeir átt í góðu samstarfi við aðra skóla án þess að sameinast.

Gangi þessar hugmyndir eftir er líklegt að Framhaldsskólinn á Laugum, rétt eins og Framhaldsskólinn á Húsavík og Menntaskólinn á Tröllaskaga verði að útibúum frá VMA og MA og hætt er við að þau “þorni upp” á nokkrum árum og endi svo að lokum undir hnífnum.

 

Það bara má ekki gerast.

 

Líklega á ekkert sveitarfélag á Íslandi meira undir en Þingeyjarsveit þegar mikilvægi framhaldsskóla er borið saman við önnur sveitarfélög. Í okkar sveitarfélagi búa tæplega 950 manns og mikilvægi Framhaldsskólans gríðarlegt í hlutfalli við aðra atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Framhaldsskólinn á Laugum er og hefur verið, okkar stóriðja í tvennum skilningi. Skólinn hefur skapað heilmikla atvinnu fyrir íbúanna og treyst grunnstoðir samfélagsins. Svo er hann auðvitað menntastofnun á gömlum merg og margir íbúanna hafa sótt nám við skólann og sparað sér mikinn kostnað við það eitt að geta nýtt sér nám í heimabyggð. Framhaldsskólar í dreifbýli efla menntunarstig og auðvelda fyrirtækjum að ráða starfsfólk sem vill sjá framhaldskóla fyrir börnin sín í næsta nágrenni.

Fastlega má gera ráð fyrir að Verkmenntaskólinn á Akureyri verði ráðandi afl í hugsanlegri sameiningu, ef svo má að orði komast, rétt eins og búast má við Menntaskólinn á Akureyri veði ráðandi afli í hinni hugsanlegri sameiningunni. Gera má ráð fyrir að ef af sameiningunni verði, muni báðar menntastofnanirnar verða skráðar til heimils á Akureyri og allar veltutekjur frá ríkinu skili sér til Akureyrarkaupstaðar en ekki til Þingeyjarsveitar, Norðurþings eða Fjallabyggðar.

Bæjarstjórn Norðurþings, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Eyþing hafa gagnrýnt þessar hugmyndir Illuga harðlega og vonandi tekur sveitarstjórn Þingeyjarsveitar undir þessar gagnrýnisraddir á sveitarstjórnarfundi á morgun.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri.