Aðalfundur SANA ályktar

0
97

Aðalfundur SANA – Samtaka atvinnurekenda á Norðausturlandi var haldinn 26. mars sl. Í stjórn samtakanna voru kjörnir Helgi Kristjánsson – Grímur ehf., Pétur Snæbjörnsson – Reynihlíð hf. og Hilmar Dúi Björgvinsson – Garðvík ehf. Til vara Þorvaldur Þór Árnason- Bílaleiga Húsavíkur ehf. og Böðvar Bjarnason – Mannvit hf.

starfssvaedi-blatt-e1362583483923

 

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktanir:

Um gjaldtökumál í ferðaþjónustu

Aðalfundur SANA – Samtaka atvinnurekenda á Norðausturlandi – harmar þann farveg sem gjaldtaka á fjölsóttum ferðamannastöðum er komin í.  Það er með öllu óviðunandi að einstaka landeigendur skulu komast upp með að krefja gesti og gangandi um greiðslur fyrir að berja náttúruperlur augum. Þá virðast hugmyndir um  náttúrupassa ekki ætla að færa þá lausn sem vænst var.
Að mati fundarins greiða ferðamenn á Íslandi þegar veruleg framlög í sameiginlega sjóði landsmanna og því ekki nema eðlilegt  að hluti þeirra fjármuna renni til að bæta aðstöðu á þeim stöðum sem þeir sækja heim.  Þannig eykst verðmæti þeirra og geta til að skapa áframhaldandi verðmæti um ókomin ár.
Samtökin hvetja sveitarstjórnir til að taka frumkvæði í málinu með því að fá fram samtal um hver skulu sjá um slík svæði og hvaða fjármunir komi til þess.  Lýsa samtökin sig reiðubúin til að taka þátt í slíkri vinnu og bjóða fram aðstoð sína.

Um orkufrekan iðnað

Aðalfundur SANA – Samtaka atvinnurekenda á Norðausturlandi – fagnar þeim áföngum sem náðst hafa við fyrirhugaða uppbyggingu stóriðju á Bakka við Húsavík.  Hér er mikið framfaraskref á ferðinni sem mun tryggja búsetu og örva fjárfestingar á starfssvæðinu.

Um snjómokstur

Aðalfundur SANA – Samtaka atvinnurekenda á Norðausturlandi – harmar hvernig staðið er að snjómokstri og vetrarþjónustu á vegum á starfssvæðinu.  Samtökin ítreka fyrra erindi til Vegagerðarinnar á síðasta ári um þetta efni og óska eftir raunverulegu samtali við stofnunina og sveitarfélögin á svæðinu um hvernig úr megi bæta.