Að halla máli

0
310

Benedikt Sigurðarson skrifaði merkilega grein um mynd Herdísar Þorvaldsdóttur „Fjallkonan hrópar á vægð“ nú nýlega á þessum vettvangi og fór mikinn. Þröstur Eysteinsson svaraði mörgu af því sem þar kom fram í ágætri grein sem hér hefur verið birt. Þröstur beindi sjónum sínum fyrst og fremst að rangfærslum Benedikts um skógrækt og er óþarfi að endurtaka það hér. En því miður gætir víðar einhverskonar misskilnings í greininni og þar sem Benedikt vill ekki að málum sé hallað er mér ljúft og skylt að benda honum og öðrum á að kynna sér málin ögn betur.

Sigurður Arnarson

Vil ég hér einkum benda á upplýsingar um fjölda sauðfjár í landinu og á samanburð á þeim myndum sem Benedikt vísar til í sinni grein. Ég mun einnig vísa til ummæla fáeinna manna sem kynnt hafa sér málin og komist að sömu niðurstöðu og Herdís. Hvað varðar önnur atriði vísa ég til greinar Þrastar..

 

Fjöldi sauðfjár í landinu.
Eins og títt er um menn sem vilja verja ríkjandi ástand í beitarmálum bendir Benedikt á að sauðfé hefur fækkað á Íslandi frá því það var flest. Það er vissulega rétt en segir ekki alla söguna. Ef menn vilja ekki halla réttu máli þarf að skoða málin í víðara samhengi. Að láta í veðrir vaka að sauðfé sé fátt á Íslandi er hrein og klár mýta. Og hallar verulega réttu máli.
Myndin, sem fylgir þessari grein, sýnir fjölda sauðfjár á Íslandi á um 20 ára fresti frá 1703. Fyrir þann tíma hefur sauðfé sjálfsagt verið vel innan við 400.000 vetrarfóðraðar ær á ári.

 

 

 

 

 

 

 

 

Á línuritinu sést líka að fé var fæst í lok móðuharðindanna. Toppurinn á 19. öldinni stafar af sauðaútflutningi á fæti til Bretlandseyja. Þá jókst rányrkjan á Íslandi. Með tilkomu frysti- og kælitækni lögðust þessir flutningar af. Bretar vildu frekar frosið nautakjöt frá Bandaríkjunum og Argentínu en ferskt, íslenskt lambakjöt. Þá var farið að borga íslenskum sauðfjárbændum styrki, rétt á meðan leitað var nýrra markaða. Þeir markaðir hafa ekki enn opnast . Á 20. öldinni fór fé að fjölga úr öllu hófi og náði hámarki seint á 8. áratugnum. Afleiðingin varð stórfelldur uppblástur og gríðarleg offramleiðsla á kjöti. Það er við það ástand sem menn eru að miða þegar talað er um að sauðfé hafi fækkað í landinu. Þó er það í dag fleira en almennt hefur tíðkast á Íslandi frá landnámi. Aldrei hefur verið fleira fé á Íslandi en á síðustu 6 áratugum. Það gerðist þrátt fyrir að samhengið milli landhnignunar og sauðfjárræktar hljóti að vera flestum mönnum ljóst. En það er samt ekki endilega fjöldinn sem skiptir máli. Vel getur verið að Ísland gæti borið allt þetta fé ef (a) hér væri land ekki víðast hvar í tötrum (en slíkt land þolir enga beit) og (b) ef hér væri vörsluskylda búfjár, þannig að ekki þyrfti að víggirða hvern gróðurblett gegn aðkomufé. Um það fjallaði einmitt mynd Herdísar.

Samanburður á myndum.
Í grein sinni vísar Benedikt í tvær myndir. Aðra kallar hann áróðursmynd en hina hófsamt svar. Ekki þekki ég þær skilgreiningar sem Benedikt styðst við þegar hann metur hvort myndir teljist hófsamar eða áróðurskenndar. Því er fróðlegt að bera þessar myndir saman.
Í öllum aðal atriðum virðast þessar tvær myndir sammála og með svipaðan boðskap.

– Báðar ganga út frá því að vel gróið land og jarðvegur sé mikilvæg auðlind.
– Báðar segja frá því að þessi mikilvæga auðlind hefur eyðst hér á undanförnum öldum vegna rányrkju og ósjálfbærrar nýtingar.
– Báðar ganga út frá því að beitarstýring sé afar mikilvæg til að viðhalda landgæðum og að sjálfbær nýting eigi að vera reglan.
– Báðar myndirnar vilja að land sé grætt upp og ofbeitt land sé friðað.
– Báðar myndirnar vilja að sauðfjárrækt sé í sátt við land og þjóð.
– Báðar myndirnar benda á að ofbeit fyrri áratuga hafi verið óásættanleg.

Í hverju felst þá munurinn? Sennilega er munurinn fyrst og fremst sá að Herdís vill banna lausagöngu búfjár en það vilja Bændasamtökin ekki. E.t.v. er þar komin skilgreining á því hvað telst hófsamt og hvað áróður.
Hið merkilega er þó að samkvæmt mynd Bændasamtakanna þá er einungis um 20-25% fjárs rekinn á afrétt. Ef gengið er út frá því að bændur almennt vilji ekki beita heimalönd nágranna sinna, þá ætti í raun að vera hægur vandi að stöðva lausagöngu ef marka má þessar tölur.

Niðurstöður rannsókna og athuganna fræðimanna.
Þar sem við Benedikt getum hvorugir talist fræðimenn í þessum geira tel ég einsýnt að rétt sé að skoða álit þeirra til að koma í veg fyrir að við höllum réttu máli. Í sinni grein benti Þröstur á að ýmsar rannsóknir hafa farið fram sem styðja það sem fram kemur í mynd Herdísar. Óþarfi er að endurtaka það allt hér.
Fræðimenn horfa einkum til tveggja þátta þegar ástand beitilanda er metið. Þættirnir eru gróðurfar og jarðvegsrof. Hvoru tveggja hefur verið metið hérlendis. Mig langar sérstaklega að benda á skýrslu sem Rala og Lr gaf út um jarðvegsrof á Íslandi árið 1986. Uppfærðar upplýsingar úr þessari skýrslu má finna hér.

Því miður hefur nánast verið farið með þessa skýrslu eins og mannsmorð frá því hún var gefin út þrátt fyrir að hún hafi fengið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs á sínum tíma. Ritstjóri skýrslunnar er Ólafur Arnalds sem er einmitt einn af viðmælendum Herdísar í hennar mynd. Skýrslan er afar fróðleg og hér með skora ég á þá sem vilja kynna sér þessi mál að lesa hana en bendi jafnframt á að ástand gróðurs getur verið slæmt þótt ekkert rof eigi sér stað. Það sést m.a. á því að uppskera á úthaga er minni er almennt gerist á freðmýrasvæðum jarðar, sem að jafnaði búa þó við verra loftslag.
Erfitt getur verið að endurheimta fyrri frjósemi eftir langvarandi ofbeit og þar sem mestöll jarðvegshulan er horfin er erfitt að græða upp land. Því getur fátt fé valdið ofbeit á stórri auðn.

Ég hirði ekki um að vísa í fleiri jarðvegs- og vistfræðinga og tel óþarfi að minnast á grasafræðinga. Í hópi þessara manna eru vandfundnir menn sem viðurkenna ekki vandann. Þess í stað ætla ég nú að minnast á þrjá látna fræðinga og einn rithöfund sem eru í miklum metum hjá fjölda Íslendinga.
Þorvaldur Thoroddsen kom í Víðidal í Lóni árið 1882 og undraðist grósku dalsins, enda höfðu þá sjaldan komið þangað kindur í 30-40 ár. Gróðurinn var óvenju mikill og stórvaxinn. Hestarnir óðu grasið, víðinn og blómlendið í hné og þar yfir. Inn á milli voru hvannastóð sem náðu mönnum í öxl. Ári seinna hófst sauðfjárbúskapur í dalnum. Tólf árum síðar kom Þorvaldur aftur í Víðidal og þá var allur gróður smávaxnari en áður. Engar hávaxnar plöntur sáust og hvannastóðið var horfið. Þorvaldur var ekki í nokkrum vafa um að sauðfjárbeitinni var um að kenna. (Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabækur 1882 og 1895)

Jarðfræðingurinn Þorleifur Einarsson rannsakaði Áfok og greindi frjó í mýrum. Hann komst að því að Skógarhögg forfeðra okkar og að„Kvikfjárrækt hérlendis hefur löngum verið stunduð sem rányrkja“ sé aðal orsök jarðvegs- og skógareyðingar á Íslandi. Skógarhöggið eitt og sér hefði aldrei megnað að eyða skógum Íslands nema vegna þess að búfjárbeitin kom í veg fyrir endurnýjun.
Sigurður Þórarinsson skoðaði jarðvegsþykknun á milli aldursgreindra öskulaga. Niðurstaða hans var sú að landnámið hafði meiri áhrif á gróðurfar en nokkurt eldgos síðastliðin 8000 ár. Orsökin er ekki veðurfarsleg að mati Sigurðar, heldur eru það maðurinn og sauðkindin sem er meginorsökin.
Eldgos og vond veður eru eðlilegur hluti náttúrunnar, fyrir og eftir landnám. Landnýting ræður miklu um viðnám jarðvegs gegn áhrifum náttúruafla. Beitin veikir viðnám gróðurs gegn áföllum eins og kólnandi veðurfari og gjóskufalli þannig að álagið af beitinni hefur verið gríðarlegt á köldum árum. Afleiðingin er sú að landið er í tötrum.
Þegar allt þetta er skoðað eru ummæli Halldórs Laxness auðskilin. Hann skrifaði fræga grein sem heitir Hernaðurinn gegn landinu og finna má hér.
Þar er bent á áhrif sauðfjárbeitar á landið. Í einni af endurminningarbókum sínum, Í túninu heima, sagði Halldór: “Þessi bitvargur, sauðkindin, hefur gegnum tíðina gert úr Íslandi það land sem svo er spilt af mannavöldum að ekkert annað evrópuland kemst þar í hálfkvisti. Einginn einstakur skaðvaldur hefur spilt Íslandi einsog sauðkindin. “
Ofbeitin fyrr á öldum var nauðvörn fátækrar og fákunnugrar þjóðar fyrir lífi sínu. Má vera að land- og gróðureyðing var það gjald sem greiða þurfti til að halda lífi í þjóðinni. En nú er öldin önnur. Hvaða afsökun höfum við fyrir ofbeit í dag?
Er þjóðin svona fátæk eða fákunnug?

Sigurður Arnarson kennari á Akureyri.