Á litli bróðir möguleika?

0
196

Fjármálaeftirlitið gerði þann 10. febrúar sl. ýmsar athugasemdir við starfssemi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga. Fjármálaeftirlitið taldi sparisjóðinn ekki fara eftir ákvæðum laga og reglna er varða eðli­lega og heil­brigða viðskipta­hætti fjár­mála­fyr­ir­tækja. 641.is hefur borist tilkynning frá stjórn sparisjóðsins vegna málsins, sem lesa má hér fyrir neðan.

Sparisjóðurinn stórtStjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga harmar þann áfellisdóm sem Fjármálaeftirlitið hefur fellt yfir sparisjóðnum með gagnsæistilkynningu dags 10. febrúar sl.

Stjórn og starfsfólk sparisjóðsins hefur á undanförnum árum leitast við að vinna með Fjármálaeftirlitinu að því að uppfylla sífellt hertar reglur og kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja og mun halda áfram á sömu braut.

Óhjákvæmilegt þykir þó að koma eftirfarandi á framfæri vegna tilkynningarinnar:

Eftir ítarlega yfirferð á tæplega helmingi af lánasafni Sparisjóðs Suður-Þingeyinga, sem tók rúmt ár, gerði
Fjármálaeftirlitið athugasemd við tvö lán án trygginga og í tveimur tilvikum við verklag og vinnubrögð sjóðsins. Sparisjóðurinn vill árétta að þarna er um eldri lánveitingar að ræða, með allt að 10 ára sögu, en skilja má tilkynningu FME sem svo að lánin hafi verið veitt á árunum 2014 og 2015.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að skjalfest verklag sjóðsins varðandi útlán væri ekki í samræmi við ákvæði laga og reglna er varða eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Sparisjóðurinn áréttar að hann leitast við í öllum sínum störfum að vinna í samræmi við gildandi lög og reglur í einu og öllu. Fyrirmæli í reglum Fjármálaeftirlitsins um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti eru matskennd, ekki mælanleg og eiga að taka mið af eðli og umfangi starfsemi. Þar eru sett fram almenn viðmið sem sparisjóðurinn hefur talið sig vinna eftir. Fjármálaeftirlitið hefur heimildir til að setja fram æskileg mælanleg viðmið en þau hafa hvergi verið gerð opinber né gerð frekari grein fyrir því hvað telst eðlilegt út frá eðli og umfangi starfsemi. Fjármálaeftirlitið fær sent afrit af reglum sparisjóðsins og er því meðvitað um þær reglur sem þar er unnið eftir. Engar athugasemdir hafa borist sjóðnum vegna þessa áður.

Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemd við eftirlit stjórnar með áhættustýringu og vanskilum sjóðsins. Engu að síður kemur fram í endanlegri skýrslu Fjármálaeftirlitsins að áhættustýring sparisjóðsins standist þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar að teknu tilliti til umfangs og eðlis starfseminnar.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við afskriftarframlög sparisjóðsins og telur að auka þurfi framlag í sérgreindan afskriftarreikning samkv. reglum nr. 834/2003 um reiknisskil fjármálafyrirtækja. Hefur sjóðurinn óskað eftir nánari rökstuðningi á hluta af þessu framlagi en ekki fengið. Ætla má að FME byggi hér á órökstuddum viðmiðum sínum um varúðarfrádrag við mat á virði veðandlaga (trygginga) s.s.atvinnutækja, bújarða og fasteigna. Þessi viðmið gera lánafyrirgreiðslu til atvinnustarfsemi á landsbyggðinni nær útilokaða að mati sparisjóðsins.

Sjóðurinn tekur fram að hann hyggst í öllum tilvikum verða við tilmælum Fjármálaeftirlitsins þó hann telji í ákveðnum tilfellum gengið lengra en reglur gera ráð fyrir.

Að lokum má nefna að Sparisjóður Suður Þingeyinga var eitt fárra fjármálafyrirtækja sem komst gegnum bankahrunið án aðstoðar, sem ef til vill segir meira um starfshætti sjóðsins en áðurnefnd gagnsæistilkynning.

F.h. stjórnar Sparisjóðs Suður Þingeyinga ses.
Ari Teitsson, stjórnarformaður