66 gististaðir í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi – Verðið hæst í Mývatnssveit

0
542

Algjör sprenging hefur orðið í framboði á gistimöguleikum í Þingeyjarsýslu á undanförnum tveimur árum og getur ferðafólk nú valið einhvern af 66 gististöðum með gistileyfi í Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppi eða Reykjahverfi þurfi það á gistingu að halda í sýslunni utan Húsavíkur. 39 gististaðir í Þingeyjarsveit og Reykjahverfi hafa gistileyfi og 27 gististaðir í Skútustaðahreppi. Gististöðum hefur fjölgað einna mest í Reykjadal en hægt er að velja á milli 16 gististaða í Reykjadal nú í sumar.

Hótel merki

Gististaðirnir eru álíka misjafnir og þeir erum margir. Hægt er að fá gistingu í einbýlishúsum eða sumarbústöðum með öllum húsbúnaði þar sem ferðafólkið sér um sig sjálft. Hægt er að fá heimagistingu með morgunmat á mörgum stöðum og svo auðvitað gistinu á hótelum. Verðið er misjafnt en að öllu jöfnu er ódýrara að gista á gistiheimilum. sumarbústöðum og einbýlishúsum heldur en á hótelum og verðið er hærra eftir því sem nær Mývatnssveit gististaðurinn er.

Verðið hæst í Mývatnssveit.

641.is framkvæmdi verðkönnun á gististöðum í Þingeyjarsýslu (utan Húsavíkur) og samkvæmt henni er gistingin almennt séð dýrust í Mývatnssveit. Hótelgisting í Mývatnssveit kostar á bilinu 35-39.000 krónur fyrir tveggja manna herbergi í eina nótt með morgunmat. Gisting á hótelum í Þingeyjarsýslu utan Mývatnssveitar kostar á bilinu 20- 30.000 krónur fyrir gistinu í eina nótt í tveggja manna herbergi með morgunmat.

Ódýrara að gista í heimagistingu.

Algengt verð á heimagistingu í Þingeyjarsýslu er frá um 15.000 krónum fyrir nóttina í tveggja manna herbergi með morgunmat, upp í um 26.000 krónur. Gæðin á heimagistingu eru afar misjöfn, þar sem herbergin eru afar mismunandi að stærð og yfirleitt er ekki salerni eða sturta inn á herbergjum í heimagistingu. Þar sem salerni og sturta er til staðar inn á herbergjum er verðið hærra.

Tekið skal skýrt fram að eingöngu var um verðkönnuna að ræða og ekki tekið tillit til annarra þátta eins og td. herbergja stærðar og/eða staðsetningar. Einnig var miðað við verð á lausatraffík en ekki verð sem fæst sé bókað með löngum fyrirvara í gegnum bókunarsíður eða ferðaskrifstofur.