641.is heldur upp á 5 ára afmæli í dag

0
94

3. desember 2008 hóf fréttavefurinn 641.is (áður Fréttasíða Þingeyjarsveitar) göngu sína og heldur því upp á 5 ára afmælið í dag. Svo skemmtilega vill til að í fyrradag 1. des, höfðu 1000 manns líkað við Facebook-síðu 641.is og einnig var 1000 fréttin/pistill skrifaður 1. des sl. á 641.is frá því að nýja útlitið var tekið í notkun 1. september 2012. Með tilkomu nýja útlitsins (wordpress) breyttist 641.is til hins betra sem gerði ritstjóra mun betur kleift að rýna í tölfræði vefsins og sést núna mjög vel hvaða vefhlutar og fréttir eru mest skoðaðar af lesendum. Sumt kemur á óvart, en annað ekki eins og gengur.

641.is fimm áraÍ stuttu máli er meðaltalsskoðun á 641.is  um 1750 (views) á dag. 40-65.000 views eru að jafnaði í mánuði og frá 1. sept 2012 hefur vefurinn verið skoðaður alls 784.000 sinnum. Besti dagurinn hingað til var 21. nóvember sl. en þá vou gestir alls í 11.059 talsins.

Tölfræði frá 1. september 2012.

Aðsent efni, umræðan, er lang mest skoðaða efnið á 641.is. Af 20 mest lesnu fréttum/pistlum eru 7 pistlar frá lesendum á listanum og þrír þeirra eru mest lesna efnið á vefnum. Kæri Bankastjóri eftir Ósk Helgadóttur er lang mest lesni pistillinn sem hefur verið birtur á 641.is frá upphafi en í dag hafa rúmlega 16.800 manns lesið hann. Er stórslys í uppsiglingu eftir Friðgeir Sigrtyggsson er í öðru sæti, en um 11.300 manns hafa lesið hann. Sorg eftir Bolla Pétur Bollason vermir þriðja sætið en hátt í 10.000 manns hafa lesið hann. Alls hafa 63 fréttir og/eða pistlar náð því að hafa verið skoðaðir oftar en í 1000 skipti. Sjá má listann yfir mest lesna efnið í dálki neðarlega hægra megin á 641.is.

Hlaupastelpan og Mýflugan

Þær “systur “eru einnig mikið skoðaðar, þar að segja síðurnar sem þær eru á. Mest skoðaða einstaka tölublað Hlaupastelpunnar er frá því í febrúar 2013, en það var skoðað í 264 skipti. Í því blaði eru þrjú þorrablót auglýst og gæti það skýrt þessa miklu skoðun á því tölublaði. Þrjú önnur tölublöð Hlaupastelpunnar hafa verið skoðuð meira en 200 sinnum. Alls hafa 20 tölublöð Hlaupastelpunnar verði skoðuð oftar en 100 sinnum.

12 tölublöð Mýflugunnar hafa verið skoðuð oftar en 100 sinnum og það mest skoðaða í um 160 skipti. Alls hefur síðan með Hlaupastelpunni verið skoðuð í 9300 skipti og Mýflugan í 6600 skipti.

Fésbókin.

Góð tenging inn á Fésbókina er farin að skipta ótrúlega miklu máli í nútíma fjölmiðlun. Sumir ganga svo langt að segja að maður geti bara gleymt þessu ef vefurinn hefur enga tenginug við Fésbókina. Þetta er að miklu leiti rétt. Það er mjög athyglisvert að flestir koma af Fésbókinni þegar þeir líta inn á 641.is, af því að efni af 641.is hefur verði deilt inn á Fésbókina eða einhver hefur líkað við eitthvað á 641.is. Þá sjá allir vinir viðkomandi það og vilja kanski skoða líka og boltinn fer að rúlla…

Fésbókar likes

Pistill Ósk Helgadóttur Kæri Bankastjóri sló öll likes-met hingað til en pistillinn hefur fengið rúmlega 4700 likes sem er ótrúlega mikið og þætti gott á stórum vefum eins og mbl, vísi og dv. Þar langt fyrir neðan kemur fréttin Náungakærleikur í verki með “aðeins” 893 likes sem þykir nú harla gott. Nokkrar aðrar fréttir/pistlar hafa náð yfir 500 likes eins og Í tilefni af áróðursmynd Herdísar þorvaldsdóttur með 777 likes, Söfnun hafin fyrir foreldra stúlku sem lést í slysi með 617 likes, Er stórslys í uppsiglingu með 589, Hugleiðingar úr sveitinni með 513 og Kolbrjálað veður í Ljósavatnsskarði með 506 likes. Alls hafa 16 fréttir eða pistlar náð yfir 300 likes

Er samræmi milli lestrar og fjölda likes ?

Í stuttu máli er svarið já. Lang oftast er mikið lesin frétt líka mikið “líkuð” Það er þó ekki algillt.  Gott dæmi um það er fréttin Fé bjargað úr fönn í Reykjadal, en þá frétt hafa 1.767 manns lesið en hún fékk einungis 9 likes, sem staðfestir að mikið lesin frétt fær ekki endilega mörg likes líka. Í þeirri frétt er fræg mynd sem Sigurður Hlynur Snæbjörnsson tók og birtist fyrst á 641.is. Myndin sem sýnir Guðmund Helga Bjarnason björgunasveitarmann úr Hjálparsveit skáta í Reykjadal halda á lambi sem Snorri Kristjánsson í Stafni í Reykjadal á, úr fönn. Myndin fór víða í fjölmiðlum daganna 12 og 13. september 2012 og vikurnar þar á eftir, þegar septemberóveðrið gekk yfir norðurland.

Efni af 641.is birtist í stóru fjölmiðlunum.

Það hefur marg sinnis gerst að efni af 641.is ratar í stóru fjölmiðlanna eins og mbl.is, rúv og fleiri. Einu sinni rataði fréttin 45 stiga frosti spáð í Mývatnsveit beint inn á mbl.is og náði því að verða mest lesna fréttin þar á bæ nokkrum klukkutímum síðar. Ekki slæmt það.. Féttastofa Rúv hefur oft vitnað í efni af 641.is og einnig Bændablaðið og grætur ritstjóri það ekki.

Samræmd vefmæling.

641.is hefur verið í samræmdri vefmælingu hjá modernus í heillt ár. Allir stærstu vefir landsins eru með í þeirri mælingu og gefur mælingin góðar upplýsinga um heimsóknafjölda og ýmislegt annað. Vefurinn hefur náð hæst í 32. sæti listans en það gerðist í síðustu viku í kjölfar skrifa Óskar Helgadóttur á vefinn. Venjulega er 641.is í sætum 50-70.

Framundan.

Engar breytingar eru fyrirhugaðar á næstunni á útliti vefsins, en lesendur geta hér eftir sem hingað til komið með tillögur að breytingum sem og sent inn efni til birtingar líkt og hingað til.

Að lokum þakkar ritstjóri lesendum sínum fyrir árin fimm sem liðin eru. Ritstjóri vill þakka sérstaklega Heiðu Kjartans fréttaritara fyrir dugnað við skrif inn á vefinn undanfarin ár.

Hermann Aðalsteinsson stofnandi og ritsjóri 641.is.