60 manns hafa farið á bogfiminámskeið í Þingeyjarsveit

0
130

Nærri 60 manns hafa nú lokið byrjendanámskeiði í bogfimi á vegum Ungmennafélagsins Eflingar í Reykjadal.  Leiðbeinandi á námskeiðunum er Guðmundur Smári Gunnarsson, Íslandsmeistari í greininni og er hann er búsettur á Laugum.  Mikill og góður árangur náðist strax á fyrsta starfsári bogfimideildarinnar. Efling á ríkjandi Íslandsmeistara í opnum flokki bæði innan- og utanhúss. Þetta og fleira kom fram í erindi Guðmundar sem hann hélt í Dalakofanum á Laugum í gærkvöld, sem fjallaði um bogfimi sem íþrótt og fyrsta starfsár bogfimideildar Ungmennafélags Eflingar í Reykjadal.

Guðmundur Smári Gunnarsson sýndi gestum keppnisboga.

 

Bogfimi er ævagömul iðja og voru bogar notaðar í bardögum og við veiðar.  Sögu bogfimi má rekja allt að 10 þúsund ár aftur í tímann.  Allmargar þjóðir lærðu að beita boga á hestbaki.  Bogar urðu ekki eins mikilvægir sem vopn og veiðitæki eftir að púðrið var fundið upp í Kína í kringum árið 1000.  Í byrjun 20. aldar fengu verkfræðingar í USA áhuga á eiginleikum boga.  Bogfimi sem íþrótt nú á dögum má rekja til þess.

 

 

Árið 1974 voru fyrstu skipulögðu æfingarnar í bogfimi á Íslandi.  Upphafið var hjá Íþróttafélagi Fatlaðra í Reykjavík. Ungmennafélagið Efling í Reykjadal er nú eitt af 6-7 félögum á Íslandi sem býður uppá æfingar í bogfimi, en  þar eru iðkendur nú 13.   Bogfimideild Eflingar var stofnuð 6. mars árið 2012.  Þorsteinn Aðalsteinson, Fellshlíð í Reykjadal, er Íslandsmeistari innanhúss og Guðmundur Smári Gunnarsson, Laugum, utanhúss.   Efling á einnig Íslandsmeistara í unglingaflokki – bæði innan- og utanhúss.  Það er Ásgeir Ingi Unnsteinsson frá Narfastöðum í Reykjadal, sem vann báða þá titla í ár.

Guðmundur sagði á fundinum frá tegundum boga og sýndi nútímaboga sem notaðir eru í keppni. Greindi frá formi á keppnum, stigaskori o.fl.   Útskýrði m.a. gang mála í úrslitakeppni bogifmi á Olympíuleikunum í London 2012 um leið og horft var á myndband af þeim viðburði.