6. Umhverfis- og lýðheilsuþing Stórutjarnaskóla

0
177

Miðvikudaginn 25. mars, var haldið árlegt umhverfis- og lýðheilsuþing í Stórutjarnaskóla. Að venju tók þingið hálfan skóladag og tíminn nýttur vel. Frá þessu segir á vef Stórutjarnaskóla. Aðalfyrirlesari dagsins var Jónas Helgason frá Grænavatni og hann leiddi okkur í mikinn sannleik um eldgos og áhrif þeirra á lífríkið. Nú vitum við t.d. að blá vötn eru snauð en „græn vötn“ eru lífrík. Einnig kenndi hann okkur að hafa með okkur kött í bandi ef við færum að virkum eldstöðvum og ef kötturinn drepst í bandinu er skynsamlegt að drífa sig af svæðinu vegna mengunar.

Umhverfis og lýðheilsuþing 2015
Mynd: Jónas Reynir Helgason

Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri skýrði frá stöðu sorpmála í Þingeyjarsveit og þar er margt mjög áhugavert í farvatninu, því brátt munu íbúar sveitarinnar fá að spreyta sig á skipulagðri flokkun og meðferð sorps.

Jónas Helgason. Mynd Jónas Reynir Helgason
Jónas Helgason. Mynd Jónas Reynir Helgason

Hlutverk nemenda á þinginu voru mörg og mikilvæg. Yngstu nemendur í umhverfis- og lýðheilsunefndinni tóku á móti 3. Grænfána Landverndar úr höndum Sigríðar Sverrisdóttur kennara á Grenivík. Það var mjög ánægjulegt, en í leiðinni sagði Sigríður skemmtilega frá breyttum áherslum í umhverfismálum frá því hún var yngri. Eldri nemendur í umhverfis- og lýðheilsunefndinni sögðu skilmerkilega í máli og myndum frá niðurstöðum mikillar lýðheilsukönnunar sem framkvæmd var meðal nemenda, foreldra og starfsfólks á síðasta ári. Þar var verið að kanna hve margar mínútur á viku viðkomandi nýtti til hreyfinga, lesturs og skjánotkunar. Margt athyglisvert kom fram að mati margra og nánar verður skýrt frá könnuninni síðar hér á heimasíðunni. Nemendur í 8. bekk skýrðu frá verkefni sínu um lýsingu sem tengist vinnu um loftslag og náttúru.

Mynd: Jónas Reynir Helgason
Mynd: Jónas Reynir Helgason

Að venju var sungið, nemendur í leikskóla og 1. – 3. bekk hófu þingið með fallegu lagi undir stjórn Mariku tónlistarkennara. Þá var leikið á roðtrommur á milli atriða og spilað á flautu. Í lokin var fjöldasöngur þar sem nemendur í 6. – 8. bekk voru forsöngvarar.

Nemendur eiga mikið hrós skilið fyrir sinn þátt í góðu og gefandi þingi. Þeir stóðu sig með prýði í öllum sínum verkefnum en ekki síst sýndu þeir hve góðir hlustendur þeir geta verið og það er mikilvægt. Gestir voru nokkuð margir, sem var einnig mjög ánægjulegt og voru þeir ekki síður til fyrirmyndar.

Fleiri myndir má skoða hér.