34 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum

0
843

34 nýstúdentar voru brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum í blíðskaparveðri í gær, en aldrei áður hafa svona margir verið brautskráðir frá skólanum. Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson brautskráðist af Félagsfræðibraut með hæstu einkun allra eða 9,35. Bjargey Ingólfsdóttir brautskráðist af Íþróttabraut með hæstu einkun stúlkna 8,09.

Lesa má brautskráningarræðu Sigurbjörns Árna Arngrímssonar skólameistara Framhaldsskólans á Laugum neðst í fréttinni.

Nýstúdentar FL 2017 

Arnór Einar Einarsson Ná
Bjargey Ingólfsdóttir ÍÞ
Bjartur Ari Hansson Ná
Brynja Dögg Björnsdóttir Fé
Brynjar Helgi Jónsson Fé
Daníel Örn Sólveigarson Fé
Emilía Sólveig Gun Óskarsdóttir Fé
Emilía Eir Karlsdóttir Fé
Freyþór Hrafn Harðarson ÍÞ
Gabríela Sól Magnúsdóttir Fé
Guðbrandur William Sölvason Fé
Guðmunda Steina Jósefsdóttir Fé
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson Fé
Guðmundur Helgi Bjarnason Fé
Guðný María Nínudóttir Fé
Guðlaug Þorsteinsdóttir Fé
Harpa Mjöll F Haraldsdóttir Ná
Hákon Breki Harðarson Fé
Heimir David Kristmundsson Ná
India Anna Bielaczyc Fé
Indriði Örn Valsson Ná
Jensína Martha Ingvarsdóttir ÍÞ
Kinga Malgorzata Reimus ÍÞ
Kolbrún Hulda Guðmundsdóttir Fé
Kristrún Ýr Einarsdóttir Fé
Lilja Katrín Gunnarsdóttir Fé
María Þorsteinsdóttir Ná
Ólafur Ingi Kárason Ná
Samúel Snær Jónasson Ná
Sara Soffía Birgisdóttir Fé
Snædís Ylva Valsdóttir ÍÞ
Stefanía Kristín Sigrúnardóttir ÍÞ
Stefán Valþórsson Fé
Sævar Freyr Freysteinsson Ná

Náttúrufræðibraut (Ná) Íþróttabraut (ÍÞ) Félagsfræðibraut (Fé)

Ræða skólameistara.

Kæru gestir, starfsfólk og nemendur skólans. Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á útskriftarhátíð Framhaldsskólans á Laugum. Í dag brautskrást 34 nýstúdentar sem er um þriðjungur af öllum nemendum skólans. Hvort svona margir hafi drifið sig að klára vegna þess manns er hér stendur skal látið liggja á milli hluta en hitt spilar þó inn í að í fyrsta sinn erum við að útskrifa nemendur í hinu nýja þriggja ára kerfi framhaldsskólanna jafnframt því sem við útskrifum síðasta árganginn í gamla fjögurra ára kerfinu. Og í tilefni af umræðunni í vetur útskrifum við að sjálfsögðu engan sem er orðinn eldri en 25 ára. Ég held líka að það sé rétt að halda því til haga að það er nú staðfest að það er alltaf svona veður þegar ég útskrifa stúdenta. Og svo er náttúrulega alltaf svona veður í Mývatnssveitinni.

Ég vil byrja á að rifja stuttlega upp skólastarf síðastliðins vetrar en þetta var fyrsti heili veturinn minn í skólastarfi. Ég er ekki lengur starfsmaður í þjálfun heldur starfsmaður á plani. Í vetur voru líka nokkrir starfsmenn með lægri starfsaldur en ég hér á Laugum og var ég því ekki lengur neðstur í goggunarröðinnni. Að öllu gamni slepptu þá var skólinn settur 28. ágúst. Fyrsta vikan nefnist Brunnur þar er hópurinn hristur saman nemendum skipt í lið sem söfnuðu stigum fyrstu vikuna með því að leysa ýmsar þrautir og vikan endaði svo á tveggja daga ferð á Vopnafjörð og Þórshöfn. Þessir staðir voru valdir því þar hefur skólinn framhaldsskóladeildir, svokölluð útibú. Þetta er áttundi veturinn á Þórshöfn sem slíkt útibú er rekið en útibúið á Vopnafirði var opnað með pompi og prakt þann 8. september og stendur Vopnafjarðarhreppur dyggilega við bakið á okkur.

Á haustmánuðum var haldið grunnskólamót fyrir grunnskólana á NA landi. Þetta er skemmtilegt íþróttamót í umsjá nemenda í starfsnámi á íþróttabraut og er góð skólakynning. Í nóvember var svo árshátíð skólans haldin í Ýdölum. Þar klæða starfsfólk og nemendur sig í Galaklæðnað og gleðjast yfir góðum mat og skemmtiatriðum fram eftir kvöldi. Að þessu sinni var sú nýbreytni höfð að starfsmenn þjónuðu nemendum til borðs í stað þess að hafa hlaðborð en við þóttum nú ekki standa okkur betur en það að nemendur báðu okkur um að hafa árshátíðina aldrei aftur með þessum hætti. Það hefur kannski eitthvað með húmor starfsmannanna að gera en reglulega var borinn fram diskur fyrir nemenda sem einungis var á þurrt rúgbrauð meðan sessunautarnir fengu dýrindis veislumat. Að sjálfsögðu sér okkar góða starfsfólk í eldhúsinu undir stjórn Kristjáns kokks um veislumatinn á árshátíð.

Rétt fyrir jólafrí gerðum við okkur svo glaðan dag sem endaði á félagsvist meðal starfsmanna og nemenda undir stjórn skjálfskipaðs hóps starfsmanna sem kallar sig Gleðigjafana. Það sem helst er munað frá þessu kvöldi er að skólameistari sigraði í vistinni með fáheyrðum yfirburðum. Félagsvist var einnig spiluð eftir Þorrablótið sem haldið var í febrúar en þá var skólameistari önnum kafinn við undirbúning liðs Þingeyjarsveitar í Útsvari þar sem liðsmenn æfðu sig í að leika og giska á rappara. Því gat skólameistari ekki tekið þátt í félagsvistinni enda skorið ómerkilegt þetta kvöld og enginn man hver vann.

Viðburður viðburðanna, Tónkvísl, var haldin í lok febrúar í beinni útsendingu á N4. Þessi hátíð sem er söngkeppni grunnskóla á NA landi sem og söngkeppni FL og FSH hefur held ég aldrei verið glæsilegri. Hún var einstaklega vel skipulögð í ár undir stjórn Guðmundar Aðalsteins Ásgeirssonar og þurftu nemendur ótrúlega lítið af fríum frá skóla til að undirbúa keppnina. Og þvílík keppni, það magn af góðum söngvurum sem til eru hér í skólanum og grunnskólunum í kring. Það er í raun óskiljanlegt að hér skuli ekki vera starfandi skólakór og eitthvað sem við verðum að bæta úr. Mér finnst líka stórkostlegt að ekki eldri einstaklingar geti staðið fyrir svona hátíð án meiri hjálpar en þau fá. Þá er ég ekki að gera lítið úr þætti Hönnu Sigrúnar félagsmálafulltrúa sem stóð þétt við bakið á krökkunum. Hún og nemendur eiga mikið hrós skilið fyrir hvað vel tókst til. Einnig vil ég þakka skólahljómsveitinni No Modus sem spilaði undir í nánast öllum atriðum. Sigurvegari Tónkvíslar í ár var Gabríela Sól Magnúsdóttir sem einmitt er í útskriftarhópnum sem og þeir Freyþór Hrafn Harðarson og Bjartur Ari Hansson sem urðu í öðru og þriðja sæti. Ég held að nemendur læri ekki minna á að halda svona keppni en í skólastofunni.

Skólinn var í samstarfi við leikdeild Ungmennafélagsins Eflingar um uppsetningu á Skilaboðaskjóðunni. Leikritið var sett upp með stuttum fyrirvara og sýnt undir stjórn Harðar Þórs Benónýssonar í apríl og maí. Fjórtán nemendur tók þátt í uppsetningunni og þar blómstruðu margir á nýju sviði í orðsins fyllstu merkingu. Einnig var afar ánægjulegt að sjá að sumir þeirra nemenda sem voru í vandræðum varðandi mætingar í skólann voru alltaf mættir, klárir, boðnir og búnir á æfingar og sýningar. Þetta samstarf er skólanum ómetanlegt en hefur því miður legið niðri undanfarna tvo vetur. Ég vona því að næsta vetur verði framhald á og enn fleiri nemendur taki þátt.

Skólaárið endaði svo á uppskeruhátíð í byrjun maí og keppni var haldin milli útskriftarefna og starfsmanna. Að þessu sinni var aðalkeppnin vatnsslagur og sakir þess hversu margir stefndu á útskrift hugsuðu nemendur sér gott til glóðarinnar. Þeir gleymdu hins vegar að taka með í reikninginn að nokkrir starfsmenn eru í slökkviliðinu og með brunabílinn að vopni. Því urðu nemendur fljótt að játa sig sigraða. Þessi keppni milli útskriftarefna og starfsmanna fer fram vor hvert og henni er ævinlega stillt upp þannig að starfsmenn sigri nokkuð örugglega. Fólki kann að þykja það harkalegt en ég minni á að á misjöfnu þrífast börnin best.

Talsverðar framkvæmdir hafa verið við skólann í vetur enda skólameistara mikil þörf á að reisa sér bautasteina. Stærsta framkvæmdin var án efa nýtt mötuneyti og matsalur. Allt haustið og ríflega það fór í þessar framkvæmdir undir stjórn Kristjáns Snæbjörnssonar og þið munið sjá afraksturinn í kaffinu á eftir. Lýsingin er betri sem og hljóðvistin sem þýðir einfaldlega að það glymur nánast ekki neitt þarna inni. Stærsta breytingin er án efa sú að græna gólfið er horfið og lyktin með því. Örvæntið samt ekki, við héldum eftir nokkrum grænum flísum og þær verða hengdar þarna upp á vegg hvað svo sem arkitektinn segir. Kristján kokkur og eldhússtarfsfólkið er gríðarlega ánægt með afraksturinn og Kristján hefur staðið við sinn hluta samningsins um nýtt eldhús, hann er búinn að skrifa undir 25 ára samning og hefur fjarlægt hengilásinn af kælinum þannig að þegar hún Gunnhildur mín eldar eitthvað vont get ég auðveldlega fengið mér kvöldsnarl.

Undanfarin tvö ár er Hnikarr íþróttakennari búinn að vera með þá Hall áfangastjóra og Guðmund Smára eða Gumma raungreinakennara í miklu átaki þar sem þeir ætluðu sér að léttast og koma þeir til Hnikarrs einu sinn í viku í vigtun. Eftir heilt ár var Hnikarr orðinn frústreraður og útskýrði fyrir þeim félögum að þetta snérist um að léttast en ekki hvor kappanna væri léttari á hverjum vigtunardegi fyrir sig. Þessi keppni endaði hins vegar þannig að við sáum okkur ekki annað fært en að stækka bara íbúðina hans Gumma svo hann kæmist fyrir. Þannig að núna eru miklar framkvæmdir í Dvergasteini þar sem verið er að stækka íbúðina á efri hæðinni um 50 fermetra ásamt því að gera ýmsar tímabærar endurbætur. Að lokum má svo minnast á að þessa dagana er verið að skipta um öll teppin á heimavistunum Tröllasteini og Fjalli sem sumir kannast betur við sem Draugastein. Það næsta sem ég hef svo áhuga á að gera er að búa til strandblakvöll, helst í samstarfi við Ungmennafélagið Eflingu og sveitarfélagið. Ég á samt eftir að ræða þessa forgangsröðun á nýtingu fjármuna við Þórunni fjármálastjóra en eitt er víst að nýr hengilás á kælinn er mjög aftarlega á merinni í útgjaldaforgangsröðinni.

Eins og áður hefur komið fram rak skólinn áfram framhaldsskóladeild á Þórshöfn þar sem nemendur geta stundað nám nálægt heimilum sínum undir stjórn Hildar Stefánsdóttur. Þessi deild er rekin í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga og sveitarfélagið Langanesbyggð og gengur reksturinn og samstarfið vel. Sams konar deild var rekin á Vopnafirði í samvinnu við Vopnafjarðarhrepp og Austurbrú undir stjórn Bjarneyjar Guðrúnar Jónsdóttur. Þar hefur líka allt samstarf gengið vel. Þessi útibú eru mikilvæg vegna þess að þar geta unglingar stundað nám í heimbyggð og með minni tilkostnaði en ella. Hins vegar hefur nemendum í þeim aðeins fækkað og ljóst að skólinn mun ekki getað rekið svona deildir standi hugur nemenda og foreldra ekki til þess að stunda nám í heimabyggð. Því er mikilvægt að allir heimamenn styðji við svona sprotastarfssemi að bestu getu.

Það sama á við Laugaskóla sjálfan. Það er mikilvægt að allir heimamenn styðji við hann þó hæpið sé að tala um sprotastarfsemi í rúmlega 90 ára gamalli stofnun. Það er ekki sjálfgefið að skólahald verði á Laugum um aldur og ævi þrátt fyrir að það hafi verið hér lengi. Ein leið til að styðja við skólann er sú hugmynd sem ég viðraði á skólaslitum fyrir ári síðan og tek upp aftur nú um að sveitarfélögin Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur ættu að sameinast um rekstur unglingadeildar grunnskólanna á Laugum í samvinnu við Laugaskóla. Ég hugsa reyndar að sveitastjórnirnar og þá væntanlega meirihluti íbúa deila ekki þessari sýn með mér. Enda er hún kannski hugsuð út fram hagsmunum Laugaskóla þó svo að ég haldi að hagsmunir Laugaskóla og sveitarfélaganna hljóti óneitanlega að fara saman. Hitt er svo stærra mál og það er hvað Þingeyingar ætla sér að gera í sínum framhaldsskólamálum? Ég held að þeir hafi svona ár til að taka þá ákvörðun áður en hún verður tekin fyrir þá. Samgöngur eru að batna og þegar gamli Herjólfur verður kominn í áætlunarsiglingar í gegnum Vaðlaheiðargöngin verður orðið stutt og greiðfært til Akureyrar. Ég hef trú á einhverjum muni þykja mikið í lagt að hafa tvo framhaldsskóla í Þingeyjarsýslu. Þingeyingar þurfa því að verða fyrri til og mynda sér einhverja stefnu í þessum málum og jafnvel að fylkja sér að baki einum skóla hvort heldur sem er hér eða á Húsavík. Einnig væri hægt að reka einn skóla með tvær starfstöðvar að hluta. Hugsanlega gæti Laugaskóli þurft enn einu sinni að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga og breytast í annars konar skóla, t.d. lýðháskóla. En hvað veit ég, mitt pólitíska nef er stutt og ég kýs alltaf vitlaust.

Útskriftarnemar 2017. Mynd: Kristinn Ingi Pétursson