30 tindar í ágúst – Landspítalasöfnun Þjóðkirkjunnar

0
122

Þorgrímur Daníelsson, sóknarprestur á Grenjaðastað ætlar að ganga á þrjátíu fjöll eða tinda í ágústmánuði til þess að vekja athygli á Landspítalasöfnun þjóðkirkjunnar sem er til þess að safna fyrir nýju geislatæki, svonefndum Línuhraðli, sem notaður er við krabbameinslækningar. Það er mikið þjóðþrifamál að endurnýja þau tæki sem nú eru notuð, en þau eru mjög komin til ára sinna og bila oft.

Þorgrímur Daníelsson í fjallgöngu.
Þorgrímur Daníelsson í fjallgöngu.

Í spjalli við 641.is sagðist sr. Þorgrímur gera ráð fyrir að ganga á fjöll í flestum landshlutum. Það fer þó mjög mikið eftir veðri hvaða fjöll hann gengur á hvern dag fyrir sig. Veðrið verður að vera skaplegt því hann hyggst taka myndir af því þegar hann er kominn upp á fjöllin og birta á facebooksíðunni sem búið er að opna vegna söfnunarinnar. Þorgrímur ætlar að byrja rólega því hann vonast til að geta gengið á Hálshnjúk í Fnjóskadal 1. ágúst nk. Hann sagðist stefna á að ganga á eitt til tvö fjöll eða tinda suma daga en fjöll eins og Snæfell og Herðubreið væru ein og sér gott dagsverk.

Hann reiknar með að gefa út gönguáætlun á facebooksíðunni 30 Tindar í ágúst á næstu dögum þar sem áhugasamir geta fylgst með Þorgrími, skoðaða myndir úr fjallgöngunum og slegist í för með honum.

Hverjum sem vill er velkomið að slást í för – á eigin ábyrgð að sjálfsögðu. Á söfnunarsíðunni verður birt gönguáætlun næstu daga eftir því sem veður leyfir.

Söfnunarreikningur Landspítalasöfnuninnar er 0301-26-050082, kt. 460169-6909.

Varðandi þessa söfnun þá gildir hið góða ráð: Hver gefi eftir efnum og ástæðum. Allan kostnað við þetta fjallgönguverkefni, akstur o.s.frv. ber Þorgrímur sjálfur.