30 milljónir króna vegna framkvæmda við Goðafoss

0
397

Helga Erlingsdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri vegna framkvæmda við stígagerð, merkinga og uppgræðslu samkvæmt deiliskipulagi við Goðafoss, en búið er að veita styrki til verkefnisins úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða upp á 15 milljónir króna. Einnig var veittur sérstakur styrkur að upphæð 15 milljónir króna vegna átaks til uppbyggingar á ferðamannastöðum 2014. Deiliskipulag vegna framkvæmdanna er í vinnslu og áætlað að það verði tilbúið í haust. Megin framkvæmd þess er áætluð nú á haustdögum og er áætlað að lagfæra aðkomu að fossinum að austanverðu fyrst.

Goðafoss - skipulag 2
Yfirlitsmynd, smella á til að skoða betur.

Að sögn Bjarna Reykjalín skipulags og byggingafulltrúa er gert ráð fyrir sérstöku móttökuhúsi með salernisaðstöðu og nestissvæði og verður það staðsett við nýtt bílastæði. Í skipulaginu er gert ráð fyrir að nýtt bílastæðið verði fjær fossinum en nú er, eins og sést á myndinni hér að ofan. Núverandi bílstæði verður breytt í dvalar og útsýnisstað og verður lagður göngu og/eða hjólastígur á milli hans og nýja bílastæðisins. Byggðir verða tveir sérstakir útsýnispallar að austanverðu og einn að vestanverðu. Óvíst er hvenær framkvæmdir við móttökuhúsið og bílastæðin hefjast.

Vegagerðin stefnir að því að byggja nýja tvíbreiða brú á Skjálfandafljót rétt fyrir neðan núverandi brú við Fosshól. Núverandi brú verður fjarlægð að því verki loknu. Þjóðvegur 1. færist þá til norðurs beggja vegna við nýju brúnna. Gert er ráð fyrir því að leggja reiðveg undir hana. Ekki stendur til að fjarlægja núverandi göngubrú, enda mikil prýði af henni og nauðsynleg fyrir ferðafólk.

Sjá nánar hér Godafoss-skipulagsnefndarkynning200314

Goðafoss - skipulag
Yfirlitsmynd til suðurs. Smella á til að skoða betur