19 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum

0
281

19 nýstúdentar voru brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum við hátíðlega athöfn og að viðstöddu fjölmenni í íþróttahúsinu á Laugum í gær. Í máli Valgerðar Gunnarsdóttur skólameistara kom fram að þetta væri tuttugasti og fyrsti stúdentahópur Framhaldsskólans á Laugum og með þeim fögnuðu einnig  fyrstu stúdentar skólans, sem töldu 8 sem halda nú upp á 20 ára stúdentsafmæli.

Nýstúdentar 2013 ásamt skólameistara, Valgerði Gunnarsdóttur. Mynd: Örlygur Hnefill Örlygsson.
Nýstúdentar 2013 ásamt skólameistara, Valgerði Gunnarsdóttur. Mynd: Örlygur Hnefill Örlygsson. (Smella á myndina til að skoða stóra útgáfu)

Við brautskráninguna í gær voru að venju tugir fyrrum nemenda Laugaskóla. Margir langt að komnir til að heiðra skólann sinn, hittast og minnast og eiga saman nýja stund í gamalla vina hópi.

Við brautskráninguna voru gagnfræðingar, landsprófs- og smíðadeildar-nemendur, sem fagna  60 ára, 50 ára og 40 ára afmælum, 30 ára 9. bekkingar og svo stúdentar að halda upp á sín afmæli, 1,5,10,15 ára og nú í fyrsta skipti 20 ára stúdentar.

Valgerður Gunnarsdóttir fráfarandi skólameistari Framhaldsskólans á Laugum.
Valgerður Gunnarsdóttir fráfarandi skólameistari Framhaldsskólans á Laugum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

“Ég óska ykkur öllum til hamingju og fagna því að þið skuluð sýna gamla skólanum ykkar þann sóma að koma hér aftur og aftur og gleðjast með okkur á þessum tímamótum. Það skiptir máli fyrir skólann að finna þessa ræktarsemi, velvild og hlýju sem kemur með ykkur” sagði Valgerður Gunnarssdóttir við brautskráninguna í gær.

Pála Margrét Gunnarsdóttir lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut á tveimur og hálfu ári. (141 eining) Hún hlaut viðurkenning fyrir góðan námsárangur á stúdentsprófi í dönsku, félagsfræði og uppeldisfræði, þýsku, íslensku, sálfræði, ensku, auk viðurkenningar fyrir hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi, 9.5 frá Framhaldsskólanum á Laugum vorið 2013.

Patrycja Maria Magdalena Reimus, Hermína Fjóla Ingólfsdóttir, Sandra Lind Bjarnadóttir, Heiða Ösp Sturludóttir og Jóhann Pétur Aðalsteinsson fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan námsárangur á stúdentsprófi.

WP_20130525_002
Pála Margrét Gunnarsdóttir

 

“Í mínu lífi eru nú ákveðin tímamót, þar sem ég hef verið kjörin alþingismaður til næstu fjögurra ára.  Ég hef sótt um leyfi frá störfum hér og verður Hallur Birkir Reynisson áfangastjóri settur skólameistari í minn stað. Ég mun sannarlega sakna allra og alls héðan, þessi fjórtán ár sem ég hef verið skólameistari við Framhaldsskólann á Laugum hafa verið góður og lærdómsríkur tími fyrir mig. Það hafa átt sér stað miklar breytingar á þeim tíma, bæði hvað varðar starf skólans og allt umhverfi og það hefur verið afar ánægjulegt að vinna að þeim með öllu því góða og hæfileikaríka starfsfólki sem hér er og hefur verið. Ég vil því þakka þeim af alhug árangursríkt og vandað starf, metnað og dugnað og hlýju og hugulsemi í öllum verkum fyrir skólann.  Ég vil líka þakka þeim fyrir virðingu gagnvart nemendum, þolinmæði og trú á að starfið skili árangri og heill fyrir framtíð þess unga fólks” sagði Valgerður Gunnarsdóttir við brautskráninguna í gær.

Brautskráning 2013
Örlygur og Ingólfur voru sæmdir silfurmerki FL

 

Á þessari vorönn tók við ný skólanefnd en skólanefnd síðustu fjögurra ára var leyst frá sinni ábyrgð. Þau sem hana skipuðu voru sæmd silfurmerki skólans. Einnig fengu Ingólfur Sigfússon og Örlygur Hnefill Örlygsson silfurmerki skólans sem viðurkenningu fyrir þeirra framlag og velvild til skólans til fjölda ára.

Ég og kom fram hér á 641.is í gær hefur Hallur Birkir Reynisson verið settu skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, en Hallur hefur verið kennari við Framhaldsskólann á annan áratug og gengt stöðu aðstoðarskólameistara og áfangastjóra við skólann.

Hér fyrir neðan má skoða nokkrar myndir frá Brautskráningunni í gær.

[scroll-popup-html id=”11″]

[slideshow_deploy id=’6260′]