Dalakofinn á Laugum í Reykjadal bauð til kvöldverðar í gærkvöld. Félagar úr Kótelettufélag Íslands steiktu kótelettur ofan í gesti Dalakofans þar sem hráefni, meðhöndlun og eldun, var að hætti Kótelettufélagsins. Kóteletturnar voru barðar og steiktar upp úr smjöri og raspi. Þær voru síðan bornar fram með brúnuðum kartöflum, rabbabarasultu, rauðkáli og grænum baunum, eins og vera ber.

Að sögn Birgis Þórs Þórðarsonar steikti Kótelettufélagið 170 kótelettur ofan í gesti Dalakofans í gærkvöld. Kótelettufélagið notar aðeins besta fáanlega hráefni við eldamennskuna og uppfyllir kjöt af dilkum sem flokkast hefur í E3+ eða meira, gæðakröfur Kótelettufélagsins. Kóteletturnar voru steiktar upp úr 6 kílónum af smjöri og brauðraspi.

Kótelettufélagið var stofnað fyrir 2 árum síðan og á þeim tíma hefur félagið vakið þó nokkra athygli. Félagið hefur efnt til kótelettukvöldverða fyrir hin ýmsu samtök. Kótelettufélagið eldaði td. fyrir hjartasjúklinga nýlega og að sjálfsögðu eru eldaðar kótelettur á öllum matarfundum félagsins. Mjög ströng inntökuskilyrði eru í félagið og þurfa áhugasamir að fá samþykki tveggja aðalfunda til þess að fá aðild að félaginu. Á milli aðalfundar eru áhugasamir í nokkurskonar aðlögun að félaginu. Það fer svo eftir því hvernig aðlögunin gengur hvort viðkomandi verður samþykktur sem fullgildur meðlimur félagsins á seinni aðalfundinum.

Kótelettufélag Íslands hefur einnig verið virkt í málefnum sauðfjárbænda og sent frá sér ályktanir sem vakið hafa athygli. Sem dæmi vakti athygli ályktu félagsins um það þegar félagið hvatti sauðfjársæðingastöðvar til að bjóða bændum upp á að nota hrúta sem gefa lengri hrygg. Einnig vakti athygli ályktun Kótelettufélagsins um mynd Herdísar Þorvaldsdóttur, sem birt var hér á 641.is fyrr í haust.