1,5 milljóna kr. sálfræðikostnaður vegna Þingeyjarskóla

0
126

149. fundur sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar var haldinn 3. júlí sl. og fyrir fundinum lágu þrír samningar milli sveitarfélagsins og þriggja aðila um ráðgjöf vegna skólamála Þingeyjarskóla. Umræddir samningar eru við HLH ehf. um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla, samningur við Ráðbarð sf. um viðhalds- og rýmisþörf og samningur við Skólastofuna slf. rannsóknir-ráðgjöf um skólaskipan. Heildarkostnaður er talinn allt að 3,6 millj.kr. Sjá alla fundargerðina hér

logo Þingeyjarsveit

Arnór Benónýsson oddviti lagði til að samningarnir yrðu samþykktir ásamt viðauka við fjárhagsáætlun 2014, sem er allt að 3,6 millj.kr. sem mætt verði með handbæru fé. Formanni fræðslunefndar verður falið að kynna samningana í Fræðslunefnd að loknu sumarleyfi.  Var það samþykkt með fimm atkvæðum A-listans, en fulltrúar T-listans sátu hjá og lögðu fram eftirfarandi bókun:

 „Við fulltrúar T-listans fögnum því að gera eigi vandaða úttekt sem taki til flestra þátta í rekstri Þingeyjarskóla. Hins vegar teljum við það skammsýni að gera ekki nú þegar heildarúttekt á öllu  skólastarfi Þingeyjarsveitar og sitjum því hjá við atkvæðagreiðslu um verksamninga þá sem nú eru lagðir fram til samþykktar.“

Sálfræðikostnaður upp á eina og hálfa milljón 

Í fundargerð fræðslnefndafrá því í byrjun apríl sl. segir að formaður fræðslunefndar Margrét Bjarnadóttir og þáverandi varaoddviti Arnór Benónýsson hefðu heimsótt allar starfsstöðvar Þingeyjarskóla í mars og rætt við starfsfólk um hvernig samstarf starfsstöðvana hefði gengið frá stofnun Þingeyjarskóla. Þau hafi skynjað ákveðna erfiðleika hjá starfsfólki sem var rakið til sameiningar skólanna. Skólastjóri Þingeyjarskóla hafði samband við Kristján Má Magnússon sálfræðing hjá Reyni Ráðgjafastofu til að fá ráðgjöf varðandi áframhaldandi starf stofnunarinnar. Í framhaldi af viðræðum skólastjóra við Kristján Má Magnússon sálfræðing sem hún kynnti fundarmönnum leggur fræðslunefnd til að samið verði við Kristján um aðstoð við að greina stöðuna í skólanum.

Á fundi sveitarstjórnar þann 10. apríl s.l. samþykkti sveitarstjórn tillögu Fræðslunefndar um að samið yrði við Reyni ráðgjafastofu um ráðgjöf varðandi starfsemi Þingeyjarskóla. Formaður Fræðslunefndar lagði til að haldið verði markvisst áfram með þá vinnu samkvæmt fyrirliggjandi verkþáttum og tímaáætlun. Heildarkostnaður er 1.5 millj.kr. en þegar hefur verið samþykktur viðauki að upphæð 300 þús.kr. til verkefnisins.

Byrjað á öfugum enda.

Samkvæmt heimildum 641.is telja margir að byrjað hafi verið á öfugum enda þegar ákveðið var að sameina skólanna í eina stofnun á sínum tíma. Sveitarfélagið hefði átt á leita til áðurnefndra ráðgjafafyrirtækja og/eða skipa starfshóp til að vinna undirbúningsvinnuna, áður en ákveðið var að sameina skólanna í eina stofnum. Þess í stað var skipaður starfshópur til að undirbúa sameininguna þegar búið var að ákveða hana.

Einnig hefði sveitarfélagið mjög líklega getað sparað sér sálfræðikostnað upp á eina og hálfa milljón króna hefði sameining Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla verði unnin fyrirfram og kynnt vel áður en til hennar kom, en ekki eftir á eins og gert var.