11,5% söluaukning 2012

0
52

Alls seldust 529 tonn af kindakjöti í desember, samanborið við 422 tonn í desember 2011. Miðað við sama ársfjórðung og 2011 (okt-des) var heildarsalan 7,3% meiri en 11,5% meiri sé litið til 12 mánaða. Söluaukning milli áranna 2011 og 2012 var nærri 670 tonn eða 11,5% eins og að framan greinir. Landsmenn voru því duglegir við lambakjötskaup á nýliðnu ári og salan er sú besta síðan 2008. Þetta kemur fram á vefsíðunni saudfé.is

logo LS

En lambið var ekki eitt um aukninguna því 7% aukning var í kjötsölu í heild á milli áranna 2011 og 2012. Íslendingar keyptu því rúmlega 1600 tonnum meira af kjöti á árinu 2012, heldur en árið á undan. Innflutt kjöt er þá ekki talið með.

12 mánaða markaðshlutdeildin árið 2012 var þannig að alifuglakjöt er í 1. sæti sem fyrr (31,4%), kindakjöt í 2. sæti (26,8%), svínakjöt í þriðja (22,6%), svo nautakjöt (16,5%) og loks hrossakjöt (2,7%). Allar ofangreindar tölur miðast eingöngu við innanlandssölu.

Framleiðsla í desember var 10 tonn og varð 9.920 tonn á árinu í heild. Það er 334 tonnum meira en allt árið í fyrra (+3,5%). Lömb voru að meðaltali hálfu kílói þyngri haustið 2012 (16,3 kg í stað 15,8 kg)en árið undan og skýrist aukningin af því, en sauðfé í landinu hefur ekki fjölgað. Að sama skapi var meðalþungi annars sauðfjár 0,8 kg hærri  árið 2012 en 2011 sem hefur einnig áhrif.

Útflutningur var 76 tonn í desember samanborið við 184 tonn í desember 2011. Útflutningur var 27,9% af sölu ársins (tæp 2500 tonn), en hann dróst saman um ríflega 4% á milli ára.