100 dagar goss í Holuhrauni

0
137

Í gær, 9. desember, voru 100 dagar liðnir frá því eldgos hófst í Holuhruni norðan Dyngjujökuls. Á vef Veðurstofunnar er áhugaverð samantekt um þessa fyrstu 100 daga.

Yfirlitskort jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 5. desember
Yfirlitskort jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 5. desember. (smella til að stækka)

 

Eitt helsta sérkenni gossins sem hófst í lok ágúst er mikið og óvenjulega stöðugt hraunflæði (fundargerð Vísindamannaráðs Almannavarna RLS 3. des.). Kvikan sem upp kemur er fremur frumstætt basalt með efnafræðileg einkenni eldstöðvakerfis Bárðarbungu. Bergfræði kvikunnar bendir til að hún hafi náð jafnvægi á 9-20 km dýpi sem þýðir að síðasti geymslustaður hennar hafi ekki verið ofar í jarðskorpunni en sem því nemur. Hraunbreiðan er nú yfir 76 ferkílómetrar. Ef þróunin verður með sama hætti og verið hefur mun eldgosið í Holuhrauni halda áfram í að minnsta kosti nokkra mánuði.

Samanburður á flatarmáli þriggja hrauna á Íslandi: Eldgjá árið 934, Laki/Skaftáreldar 1783-1784 og Nornahraun árið 2014. Heimildir: Flatarmál Eldgjár- og Lakahrauna og rúmmál Eldgjárhrauns úr Thordarson et al. 2001. Rúmmál Lakahrauns úr Thordarson et al. 1993. Upplýsingar um Nornahraun frá eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Unnið af William Moreland.
Samanburður á flatarmáli þriggja hrauna á Íslandi: Eldgjá árið 934, Laki/Skaftáreldar 1783-1784 og Nornahraun árið 2014.         Heimildir: Flatarmál Eldgjár- og Lakahrauna og rúmmál Eldgjárhrauns úr Thordarson et al. 2001. Rúmmál Lakahrauns úr Thordarson et al. 1993. Upplýsingar um Nornahraun frá eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Unnið af William Moreland.

Nýja hraunið er það stærsta sem runnið hefur hér á landi frá Skaftáreldum (1783-1784) og sennilegaþriðja stærsta hraun sem runnið hefur á jörðinni á sama tímabili. Að auki hefur gasmengun frá eldgosi áhrif víða um land í fyrsta skipti í 150 ár (sjá tölugildi í enskri samantekt). Ástæða þessa er hversu stórt gosið er og hversu lengi það hefur staðið. Þó sýnir kortið hér fyrir ofan, þar sem Nornahrauni hefur verið tyllt inn á milli hrauntungna frá Laka, fyrst og fremst hversu gríðarleg hraunflæmi runnu á 18. og 10. öld.

Áfram skelfur jörð við Bárðarbungu

Stærsti skjálftinn í Bárðarbungu frá því í gærmorgun var 4,9 að stærð kl. 18:00 og átti hann upptök við norðanverða öskjuna. Að minnsta kosti 2 aðrir skjálftar yfir 4 að stærð voru við Bárðarbungu og um hálfur annar tugur skjálfta á stærðarbilinu 3 til 4. Alls mældust tæplega 100 jarðskjálftar við Bárðarbungu síðasta sólarhringinn. Mjög fáir skjálftar voru í bergganginum og voru þeir allir undir 2 að stærð. Við Tungnafellsjökul urðu 3 skjálftar og við Öskju og Herðubreið 5 skjálftar, allir undir 2 stigum. Vedur.is