100 ára afmælishátíð HSÞ – Glæsileg skemmtun

0
300

Sl. sunnudag, 2. Nóvember, var haldið upp á 100 ára afmæli Héraðssambands Þingeyinga HSÞ í íþróttahúsinu á Laugum í Reykjadal. Hátíðin var vel sótt en talið er að um 450 manns hafi heiðrað afmælisbarnið með nærveru sinni. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá og vel útilátið kaffihlaðborð sem var í umsjá Kvenfélags Reykdæla. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til við að gera daginn ánægjulegan og öll umgjörð hátíðarinnar aðstandendum til sóma.

Frá afmælishátíðinni
Frá afmælishátíðinni

HSÞ var stofnað á Breiðumýri 31. október 1914 og fékk upphaflega nafnið Samband þingeyskra ungmennafélaga eða SÞU. Átta ungmennafélög stóðu að stofnun sambandsins. SÞU var fimmta sambandið undir merkjum ungmennafélaganna. Fyrsti formaður þess var Þórólfur Sigurðsson í Baldursheimi og gengdi hann formennsku í tæp 10 ár. Árið 1941 fékk sambandið nýtt heiti sem var Þingeyingur en því var svo breytt aftur þremur árum síðar í Héraðssamband Suður – Þingeyinga og hélt því nafni þar til það sameinaðist Ungmennasambandi Norður – Þingeyinga (UNÞ) vorið 2008 og heitir hið sameinaða félag Héraðssamband Þingeyinga eða HSÞ. Aðildarfélög HSÞ eru 31 talsins og telur samkvæmt félagatali um 3500 félaga og yfir 2000 iðkendur

HSÞ hefur nokkrum sinnum í gegnum tíðina staðið að landsmótum UMFÍ, árið 1946 og 1961 á Laugum og á Húsavík 1987. Unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Laugum árið 2006 og svo nú í sumar 2014, var í tilefni af aldarafmælinu, haldið á Húsavík landsmót UMFÍ 50+ og var mótið hið glæsilegasta.

Pétur Þórir Gunnarsson og glíma
Pétur Þórir Gunnarsson og Júlíus Björnsson glíma

Þórhallur Bragason veislustjóri setti hátíðina sem hófst á söguágripi Jóhönnu S. Kristjánsdóttur formanns HSÞ og fulltrúi ÍSÍ Gunnlaugur Júlíusson og Helga G. Guðjónsdóttir formaður UMFÍ ávörpuðu samkomuna. Sveinn í Kálfskinni lýsti kynnum sínum af Óskari Ágústsyni sem var lengi formaður HSÞ í skemmtilegri ræðu og söngflokkurinn Sálubót og Karlakórinn Hreimur fluttu nokkur lög af sinni alkunnu snilld, fyrst sitt í hvoru lagi og svo saman í dagskrárlok. Gestir tóku þátt í fjöldasöng sem Steinþór Þráinsson stjórnaði. Júlíus Björnsson og Pétur Þórir Gunnarsson glímumenn úr Mývetningi sýndu gestum glæsilega tilburði í íslenskri glímu og lýsti glímudómarinn Arngrímur Geirsson því sem fyrir augu bar.

Fyrrverandi formenn HSÞ og UNÞ
Fyrrverandi formenn HSÞ og UNÞ

Þjóðdansafélagið Þistilhjörtun sýndu þjóðdansa af mikilli snilld. Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem gat ekki verið viðstaddur hátíðina, ávarpaði gesti á myndbandi sem varpað var á breiðtjald. Hann bað fyrir kærar kveðjur til sambandsins og óskaði Þingeyingum til hamingju með 100 ára afmælið.

Átta einstaklingar voru heiðraðir fyrir ómetanlegt starf í þágu HSÞ. Eftirfarandi fengu heiðursnafnbótina Heiðursfélagi í HSÞ: Anna Sigrún Mikaelsdóttir, Arnór Benónýsson, Brynjar Halldórsson, Guðrún Sigurðardóttir, Hólmfríður Halldórsdóttir, Kristján Elvar Yngvason, Pétur Vignir Yngvason og Jón Friðrik Benónýsson. Sýnt var skemmtilegt myndband sem gert var sérstaklega til heiðurs Jóni Friðriki Benónýssyni, eins og getið er um hér.

2010-08-05 21.52.22
Heiðursfélagar HSÞ

HSÞ fékk peningagjafir frá sveitarfélaginu Þingeyjasveit, ÍSÍ, GPG Seafood ehf og Skipavík ehf í Stykkishólmi. Einnig gaf UMFÍ fallegan skjöld og fulltrúar ÚÍA komu og færðu nágrannasambandi sínu fallegt málverk eftir silfurdrenginn og ólympíu-þrístökkvarann Vilhjálm Einarsson.

Gunnar Gunnarsson formaður ÚÍA og Bergsdóttir afhentu formanni HSÞ málverkið
Gunnar Gunnarsson formaður ÚÍA og Bergsdóttir afhentu formanni HSÞ málverkið

Í kaffihléinu gafst gestum hátíðarinnar kostur á að skoða sögu og minjasýningu HSÞ sem hékk uppi á Safnahúsinu á Húsavík í sumar. Á sýningunni kenndi ýmissa grasa frá liðinni tíð. Mjög stórt bikarasafn var til sýnis, gamlar myndir frá hinum ýmsu mótum og munir sem íþróttafólk notaði á árum áður. Þess ber að geta að í tilefni aldarafmælisins er fyrirhuguð útgáfa á heimildariti um sögu HSÞ og UNÞ sem er væntalegt úr prentun síðla í nóvember. Bókin var í forsölu á staðnum og gestir gátu líka keypt HSÞ-jakka og penna í tilefni afmælisins.

Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ
Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ

 

 

 

 

Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ sleit svo mjög vel heppnaðri afmælishátíð og þakkað gestum fyrir komuna.