0,4 gráðu hækkun meðalhita á áratug á Staðarhóli

0
108

Tæplega 40 manns hlýddu á erindi Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings í Dalakofanum á Laugum í gærkvöld, en erindi Einars hét “Sérkenni veðurfars í S-Þing – Miklar andstæður frá fjöru til fjalla”  Erindið var hið fyrsta í röð nokkurra fræðsluerinda sem flutt verða í vetur á vegum Urðarbrunns undir heitinu Vísindi á virkum degi.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur með mynd af meðalúrkomu áranna 1961-1990.

Einar sagði mikinn mun á veðurfari á Húsavík og Tjörnesi annars vegar og fram í dölum Þingeyjarsýslu og Mývatnssveit hins vegar.   Meginlandsáhrif væru ríkjandi í veðrinu. Hann taldi upp helstu einkenni veðurfars á svæðinu.  Vindáttir og áhrif landslags á stefnu vinds, sem leitar „auðveldustu leiðar“ í landslaginu. Rakti svo staðhætti þar sem vindur nær sér vel upp.  Einar sýndi úrkomukort með samandregnum upplýsingum frá 1961 til 1990. Einnig sýndi Einar hafístímabil frá 1965 og frá 1880 sem voru útskýrð á skemmtilegan hátt.

Óeðlilega hár loftþrýsingur yfir Norður-Atlantshafi setti öll veðurkerfi á hvolf árið 1880 og í raun tók það náttúruna 10 ár að leiðrétta það.  Kuldatíð og hafísár gengu yfir og um 20% landsmanna fluttu úr landi. Þetta tímabil hefur gjarnan verði kallað litla ísöld.

Meðalhiti hefur hækkað og nefndi Einar mælingar á Staðarhóli í Aðaldal, sumarmánuðina júní, júlí og ágúst – yfir langan tíma.  Þær mælingar benda til að meðalhiti hafi hækkað um 0,4 gráður á áratug, sem er mjög mikið og gjörbreytir í raun miklu haldi sú þróun áfram.

Einar ræddi næst um næturfrost .  Þurrt sumar ýtir undir hættuna á næturfrosti, því vatn í jarðvegi hindrar frystingu.  Ef lítið er um vatnsgufu í loftinu og jarðvegi er hætta á frystingu meiri.

Minntist Einar stuttlega Friðjóns Guðmundssonar á Sandi í Aðaldal, sem var veðurathugunarmaður í 65 ár. Fæddur 1920, dáinn 2007.

Óveðrið 9-11 september 2012

Einar rakti ástæður veðuráhlaupsins 9. September síðastliðinn.  Lýsti veðurkerfum, lægðum austan við land sem náðu stöðugt að draga rakt land sunnan úr höfum og úrkoman féll svo sem snjókoma.  Klukkan 18. sunnudaginn 9. September var lægðin djúp og á miðnætti aðfararnótt mánudagsins 10. September var hún 975 millibör. Úrkoman var mjög mikil um nóttina. Klukkan 6 á mánudagsmorgni var lægðin 972 millibör og rafmagnið farið af, enda úrkoman í hámarki.  Úrkoman var á milli 15 og 20 millimetrar á 3 klukkustundum (5-7 millimetra ákefð úrkomu á klukkustund), sem er gríðarlega mikil úrkoma.   Þessi úrkoma féll öll sem slydda eða snjókoma en ekki sem rigning.  Íslandskortið klukkan 9 um morguninn var svæsið.  T.d. var skyggni ekkert á Grímsstöðum á Fjöllum og 0 gráðu hiti.  Mun hlýrra var á austurlandi, t.d. var 6 stiga hiti á Egilsstöðum. Mest var úrkoman á svæðinu frá Skagafirði austur að Möðrudal.  Klukkan 12 á hádegi er lægðin komin suðaustur fyrir austfirði og klukkan 18 var enn hífandi rok og nægur raki til staðar til að úrkoma héldi áfram.  Á miðnætti aðfararnótt 11. September er farið að draga úr veðri og það gekk yfir á þriðjudagsmorgni.  Í áhlaupinu var mesta sólarhringsúrkoman 110 millimetrar á Mánárbakka.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur

Einar svaraði fjölmörgum fyrirspurnum eftir erindi sitt.  Fram kom það álit fundarmanns að Veðurstofan hefði tilhneigingu til að ofmeta hita og vanmeta kulda í Suður Þingeyjarsýslu.  Einar tók undir það. Afleiðingarnar eru  verri ef veðrið verður kaldara en spáð var, heldur en ef það reynist hlýrra. Rætt var um alþýðuvísindi á borð við það að spá í garnir og lesa í legu músarholu varðandi ríkjandi vindáttir á vetrum. Rætt var um gróðurhúsaáhrif og bráðnun jökla.

Fræðsluerindinu lauk um kl 22:00 og fóru gestir fróðari heim um sérkenni veðurfars í Þingeyjarsýslu.